Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum

43. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 16:47:53 (1990)


[16:47]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Það er laukrétt hjá hv. þm. að þetta er ekki í fyrsta skipti sem ríkisstjórnin bregst fljótt við og kemur málum í verk sem áður hafa dregist. Ég vil á hinn bóginn segja að samþykkt ríkisstjórnarinnar er engin tilviljun. Auðvitað hafa fleiri en hv. þm. hugsað um hvað gera megi til þess að tryggja og auka öryggi í umferðinni og nú hittist svo á að það hefur verið rætt á það á fundum þeirra ráðherra á Norðurlöndum sem öryggismál í umferð falla undir, umferðarmálin, og hafa hinar norrænu þjóðir einsett sér það að grípa til ráðstafana sem megi verða til þess að fækka umferðarslysum fram að aldamótum um a.m.k. 20%. Að þessu leyti er samþykkt ríkisstjórnarinnar af sama toga og hliðstæðar samþykktir í öðrum Norðurlöndum.
    En það er rétt að ríkisstjórnin hefur samþykkt og einsett sér að beita tilteknum ráðum til þess að reyna að draga úr slysum í umferðinni og að því lýtur samþykkt hennar. Það verk er hafið og raunar hófst nú í haust frekar en á miðju sumri undirbúningur að slíkri tillögugerð sem stóðu að annars vegar dómsmrn. og hins vegar Vegagerð en fleiri munu koma inn í það mál nú.