Álagning vatnsgjalds og aukavatnsgjalds

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:25:35 (2005)


[17:25]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Í 2. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar segir að í undantekningartilvikum þegar stofnkostnaður og/eða reksturskostnaður vatnsveitu er óvenjulega hár getur ráðherra veitt sveitarstjórn heimild til að ákveða hærra aukavatnsgjald en segir í 1. mgr. svo það hlýtur að lúta að því að ein sveitarstjórn geti haft hærra vatnsgjald vegna þessa. Rökin fyrir þeirri heimild sem kemur fram í 2. mgr. er þau helst að sveitarstjórnum sé auðveldað að afla tekna til að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af því að reka vatnsveitu og aukakostnaði ef sá kostnaður er mjög hár.
    Virðulegi forseti. Svar mitt við 3. spurningunni: ,,Hvaða kostnaði á, að mati ráðherra, aukavatnsgjald að mæta við framkvæmdir og rekstur vatnsveitu?`` er þetta:
    Ekki er sérstaklega tilgreint í lögum eða reglugerð fyrir vatnsveitu sveitarfélaga að aukavatnsgjaldi skuli varið til að mæta tilteknum hluta framkvæmdakostnaðar eða rekstrarkostnaðar vatnsveitu og því lít ég svo á að miðað við ákvæði laganna og reglugerðarinnar að allar tekjur vatnsveitu sveitarfélags, hverju nafni sem þær nefnast, skuli almennt mæta framkvæmda- og rekstrarkostnaði vatnsveitunnar.