Arðgreiðslur vatnsveitu

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:27:27 (2006)

[17:27]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Í ársreikningum Reykjavíkurborgar má sjá að ýmsum stofnunum borgarinnar er gert að greiða sérstakt gjald til borgarsjóðs. Ein af þeim stofnunum er Vatnsveita Reykjavíkur og er henni gert að greiða afgjald til borgarsjóðs eins og það heitir í reikningum Vatnsveitunnar en þetta er líka nefnt arður af fyrirtækjum og vísa ég til fjárhagsáætlunar varðandi það. Gjald þetta nemur á þessu ári 50 millj. kr. eða liðlega það sem er þriðjungur þess afgangs sem er eftir af rekstri Vatnsveitu Reykjavíkur þegar kostnaður hefur verið greiddur. Það skiptir því máli upp á skilninginn á því hvaða kostnaði vatnsgjald og önnur gjöld vatnsveitu eiga að mæta að menn hafi kláran skilning á því hvort heimilt er að taka afgjald og færa til kostnaðar í bókum vatnsveitunnar og hversu mikið það mætti þá vera ef það væri heimilt.
    Af þeim ástæðum ber ég fram fsp. á þskj. 203 um arðgreiðslu vatnsveitu, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Hvernig samrýmist það ákvæðum laga um vatnsveitur sveitarfélaga að Vatnsveitu Reykjavíkur er gert að greiða sérstaka arðgreiðslu í borgarsjóð?
    Af hvaða stofni á að reikna slíkan arð og hversu hár má hann vera?``
    Í lögunum um vatnsveitur sveitarfélaga er ekki að finna nein ákvæði um það sem heimilar stofnun sveitarfélagsins sjálfs að reikna sér sjálfri arðgreiðslu af bundnu fjármagni eða stofnkostnaði sem liggur í þeim borgarstofnunum eða sveitarfélagastofnunum. Hins vegar er að finna ákvæði sem tekur á því þegar sveitarstjórn selur annarri sveitarstjórn vatn, þá má taka endurgjald fyrir það sem á að duga fyrir rekstrarkostnaði svo og líka allt að 5% álagi af bundnu fjármagni. Þetta er eina ákvæðið sem ég sé í lögunum sem heimilar að seljandinn taki greiðslu af þessu tagi og ég get ekki séð að hægt sé að nota þetta ákvæði laganna til að innheimta almennt á gjaldendur vatnsveitu.
    Þess vegna ber ég fram þessa fsp., virðulegur forseti, sem ég hef gert grein fyrir á þskj. 203.