Arðgreiðslur vatnsveitu

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:35:35 (2009)


[17:35]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það er rétt hjá fyrirspyrjanda að í þeim greinum sem hann hefur bent á í lögunum um vatnsveitur er ekki beinlínis kveðið á um heimild til slíkra arðgreiðslna. Hins vegar eru, eins og ég benti á, ákvæði í 6. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem kveðið er á um að sveitarfélög hafi sjálfsforræði á gjaldskrá eigin fyrirtækja og stofnana til þess að mæta kostnaði við framkvæmd þeirra verkefna sem þau annast og erfitt fyrir mig að kveða upp úr um það hvort arðgreiðslur séu einhvern veginn á skjön við þau

ákvæði. Hitt er annað mál að ég hef fullan áhuga á því að kynna mér hvernig almennt er farið með þessi mál hjá sveitarfélögum vítt og breitt um landið, að hvaða marki það tíðkast að innheimta arðgreiðslur af undirstofnunum. Ég held að það væri mjög fróðlegt að skoða það og í hvaða mæli þetta er. Að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um hvort hér sé verið að fara fram hjá eða ganga lengra en hin ýmsu ákvæði sem heimila sveitarstjórnum að innheimta og gefa þeim tekjustofna leyfa. Ég hef reynt að svara þessari fyrirspurn eins og ég best get og hef fullan áhuga á því að kynna mér nánar hvernig farið er almennt með arðgreiðslur fyrirtækja.