Reykjavíkurflugvöllur

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:53:42 (2015)


[17:53]
     Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef lagt fram fsp. fyrir samgrh. um mál sem lúta að Reykjavíkurflugvelli, einkum og sér í lagi í ljósi þess að um Reykjavíkurflugvöll fara um 300 þús. manns árlega og flugstöðin þar er komin nokkuð til ára sinna. Hluti af henni er frá um 1950 og síðan hafa bæst við einhverjar viðbótarbyggingar þar.

    Þar sem flugbrautir á Reykjavíkurflugvelli eru jafnframt mikið notaðar sem raun ber vitni hlýtur að vakna spurning um ástand þeirra. Gárungarnir sögðu þegar flugbrautirnar voru gerðar í seinni heimsstyrjöldinni að þær vildu eftir nokkurn tíma gefa sig mjög og höfðu þeir orð um það að Bretar hefðu notað klaka í púkk undir þessar brautir, því hefði farið sem fór. En engu að síður er líka svo að það var rætt um það fyrir nokkrum árum að hér væru ríkjandi austlægar áttir, þær væru 60--70% vindátta sem blésu um höfuðborgina. Þá var mikið rætt um það hvort ekki væri rétt að byggja nýja flugbraut og voru menn þá helst að tala um hvort ekki væri eðlilegt að byggja nýja austur/vestur braut.
    Eins og ég kom áðan inn á er flugstöðvarbyggingin byggð fyrst um 1950 og hafa verið framkvæmdar ýmsar betrumbætur á henni en hins vegar er rétt að taka fram að í mínum huga er staðsetning Reykjavíkurflugvallar mjög góð og bæði landsbyggðin og Reykvíkingar njóta góðs af þeirri staðsetningu og af henni hlýst síðan mikil hagræðing. En ég hef með leyfi forseta lagt fram tvær spurningar til samgrh.:
  ,,1. Hvernig er ástand Reykjavíkurflugvallar sem er aðalsamgöngumannvirki innanlandsflugs?
    2. Hvenær er fyrirhugað að byggja nýja flugstöð fyrir allt innanlandsflug?``
    Eru þessar spurningar lagðar fram með tilliti til þess sem ég gat um áðan.