Reykjavíkurflugvöllur

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 18:02:55 (2018)

[18:02]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég vil bæta því við svar mitt áðan að ástæðan fyrir því hversu hefur dregist að ráðast í úrbætur og endurbætur á Reykjavíkurflugvelli á m.a. rætur sínar að rekja til þess að sú ákvörðun var tekin fyrir fjórum eða fimm árum að láta það sitja fyrir að byggja alþjóðlegan flugvöll á Egilsstöðum sem kostaði á annan milljarð kr. og sömuleiðis var það ákveðið fyrir þremur árum að af flugmálaáætlun yrði greiddur hlutur Reykjavíkur í byggingu hinnar alþjóðlegu flugstöðvar hér í Reykjavík. Af þessum sökum hafa ýmis önnur verkefni orðið að sitja á hakanum sem ella væru komin í framkvæmd. Ég hygg að hv. þm. séu sammála um að það var mjög mikilvægt fyrir okkur að alþjóðlega flugstjórnarmiðstöðin yrði reist hér á landi. Hún er mjög fullkomin og skapar okkur miklar gjaldeyristekjur og auðvitað öryggi í fluginu yfir höfuð að tala. En ég geri sem sagt ráð fyrir því að eftir þrjú ár, þegar nauðsynleg uppbygging á þýðingarmestu stöðum úti á landi er það langt komin að þar er hægt að hægja á ferðinni, verði hægt að taka duglega til höndum í Reykjavík.