Tölvubúnaður fyrir textasíma

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 18:04:56 (2019)


[18:04]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 234 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh. um tölvubúnað fyrir textasíma.
    Fsp. er á þessa leið:
    ,,Hvenær verður tekin ákvörðun um kaup á tölvubúnaði fyrir textasíma?``
    Aðdragandinn og ástæðurnar fyrir þessari fsp. eru þær að fyrir nokkru eða í sumar var ákveðið að bjóða út tölvur fyrir textasíma. Þessi ákvörðun var tekin af hæstv. fyrrv. heilbr.- og trmrh., Guðmundi Árna Stefánssyni, og það voru fjölmargir aðilar eða 11 talsins sem gerðu tilboð í þetta verkefni, tölvur fyrir textasíma. Það eru bundnar miklar vonir við þetta mál af hálfu Félags heyrnarlausra eins og kemur skýrt fram í blaði þeirra þar sem segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Niðurstaðan [eftir nokkrar umræður] var skýr, besti kosturinn er tölvur með samskiptaforriti.
    Síðar var auglýst útboð á 200 tölvum með innbyggðu módemi. Windows og Dos-stýrikerfi og samskiptaforritið er auðvitað ókeypis.``
    Í þessu útboði var reiknað með tveimur gerðum af tölvum, borðtölvu og fistölvu, þ.e. fartölvu. Er öll tilboðin voru opnuð kom í ljós að fyrirtækið HKH var með lægst aðaltilboð, 18 millj. 638 þús. kr., en hæsta tilboðið gerði annar aðili. Munurinn á þessum tveimur aðilum, hæsta og lægasta tilboði, var tæplega 10 millj. kr. og alls buðu eins og ég sagði áðan 11 fyrirtæki mismunandi upphæðir.
    Niðurstaðan lá sem sagt þarna fyrir þegar tilboðið var opnað þann 28. sept. sl. klukkan 14 á fundi sem haldinn var hjá Ríkiskaupum.
    Skemmst er frá því að segja, hæstv. forseti, að síðan hefur ekkert til ákvörðunar spurst af hálfu heilbr.-og trmrn. og þeir sem binda miklar vonir við þetta, bæði heyrnarlausir og aðstandendur þeirra, eru orðnir býsna langeygir eftir því að niðurstöður fáist og þess vegna legg ég þessa spurningu fyrir hæstv. heilbrrh.: Hvenær verður tekin ákvörðun um kaup á tölvubúnaði fyrir textasíma? Hvenær verður tekin ákvörðun um það? Hvaða tilboði verður tekið?