Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:06:22 (2031)

[14:06]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegur forseti. Mér er skapi næst að fara fram á að umræðunni verði frestað. Hæstv. landbrh. sýnir Alþingi algera óvirðingu með því að koma með tilkynningu um að hann hafi ætlað að boða forföll akkúrat daginn sem staðfesting GATT-sáttmálans og hinnar nýju viðskiptastofnunar er tekin til umræðu á hinu háa Alþingi. Ég minni á það, virðulegur forseti, í þessu samhengi að öllum efnislegum þáttum varðandi það hvernig yrði tekið á GATT-málunum varðandi breytingar á búvörulögum ýtti Alþingi á undan sér að kröfu stjórnarmeirihlutans á síðasta vetri og þar var sýknt og heilagt vitnað í starf fimm ráðuneyta nefndar sem átti að koma með þær lausnir sem þar áttu að verða á. Við stöndum hins vegar frammi fyrir því núna að ekkert er að fá. Hæstv. utanrrh. sagði áðan að nefndin væri enn að velta fyrir sér tollígildum og lágmarksaðgangi. Virðulegi forseti. Við þessar aðstæður er alger vanvirða við Alþingi að hæstv. landbrh. skuli ekki sjá sér fært að vera við umræðuna og segir kannski mest um stöðu málsins og samstarf stjórnarflokkanna núna.
    Ég vil reyndar skora á hv. þm. Egil Jónsson, formann landbn., að koma og segja álit sitt á vinnubrögðum þeirrar ríkisstjórnar sem hann styður í gegnum þykkt og þurrt.