Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:17:37 (2037)

[14:17]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég fagna því að hæstv. forseti notar sér þá heimild sem iðulega er notuð til þess að raða ræðumönnum eftir flokkum og hafði ég raunar treyst því að svo yrði í þessari umræðu þar sem breytingar urðu á því hver okkar kvennalistakvenna leiddi þessa umræðu vegna veikinda sem voru ófyrirsjáanleg. En ég þakka hæstv. forseta fyrir að taka þetta frumkvæði og halda þessari ágætu reglu að sem flest sjónarmið komist að strax.
    Virðulegi forseti. Það er mikið rætt um gildi alþjóðlegs samstarfs og ekki að ástæðulausu og það er því mjög áhugavert að vera hér að ræða GATT-samningana. Í grundvallaratriðum má margt gott um þá samninga segja og sérstaklega fyrir það að þarna hefur tekist víðtækt samkomulag þjóða um allan heim. Lengi vel var það álitamál hvort stór þjóð eins og Bandaríkin treystu sér til þess að vera þarna með en nú hillir undir að svo muni verða og það er út af fyrir sig góðra gjalda vert. Þá virðist svo vera að það sé grundvöllur fyrir þessum samningum.
    Almennt séð eru aukin alþjóðaviðskipti mjög eðlileg en það þarf að gæta ákveðinna atriða, það þarf að gæta vistfræðilegra sjónarmiða. Mér er kunnugt um það að innan þeirra hópa sem hafa tekið hvað virkastan þátt í Úrúgvæ-viðræðunum og víðar hefur verið reynt að gæta þessara sjónarmiða og reynt að ganga lengra en gert hefur verið að þessu sinni. Ég held að það sé framtíðin að það muni verða tekið mun meira tillit til þeirra sjónarmiða í alþjóðlegum samningum og m.a. yrði litið til Brundtland-skýrslunnar sem

hefur kortlagt að mörgu leyti hvað er æskilegt í framtíðinni ef við eigum að geta lifað í sátt við þessa jörð sem við búum á. Það þarf að huga betur að því jafnframt því sem alþjóðleg viðskipti eru aukin að vera ekki með viðskipti að óþörfu og flutning að óþörfu heldur að gera hvert svæði fyrir sig sem mest sjálfbjarga. Þetta er einnig mjög mikið hagsmunamál fyrir þróunarlönd að það sé hugað að vistkerfinu vegna þess að sagan hefur sýnt okkur að rík ríki hafa á köflum gengið mjög nærri náttúru fátækari landa og þessi viðhorf skipta miklu máli vegna þess að þau koma inn í alþjóðleg viðskipti. En svo sem kunnugt er hafa þau verið inni í umræðunni í GATT-viðræðunum, í Úrúgvæ-viðræðunum, og ég hef þá trú að þessi sjónarmið muni í framtíðinni vega þyngra þar sem umhverfisvernd er sífellt meira sinnt og fólk er að verða sífellt meðvitaðra um það hvað það skiptir miklu máli að allir geti tryggt framtíð þessarar jarðar eins góða og hægt er og nýtt auðlindir jarðarinnar í eins góðum takti við það sem hún þolir og við höfum vit og getu til.
    Varðandi þann mikla bálk sem liggur fyrir nú þá er ljóst að þarna hafa víða orðið málamiðlanir og það geta ekki allir fengið allt. Þannig er það alltaf í alþjóðasamningum og það er að sjálfsögðu það mat sem við stöndum hér frammi fyrir. Það hefur komið glögglega fram í þessum umræðum að það er fyrst og fremst á valdi íslenskra stjórnvalda að fara vel með þær niðurstöður sem við höfum náð. Nýti íslensk stjórnvöld þær heimildir og þá möguleika sem þessi samningur gefur til þess m.a. að standa vörð um íslenskan landbúnað og framtíð hans, jafnframt því að gæta hags neytenda, þá kvíði ég ekki framtíðinni. Við höfum það svigrúm sem við þurfum með þessum samningum svo framarlega sem það er eitthvað að gerast í útfærslu þeirra. Eina stóra áhyggjuefnið núna er að það lítur út fyrir að sú mikla ráðuneytanefnd sem sett var á laggirnar meira og minna í vandræðagangi sl. vor sé ekki að gera það sem hún á að vera að gera. Það er fyrst og fremst vegna mikils ágreinings sem hefur birst okkur í mörgum myndum og á rætur sínar að rekja til gjörólíkra sjónarmiða stjórnarflokkanna þar sem menn einfaldlega ná ekki saman. Ég hef ítrekað leitað eftir gögnum um stöðu málsins til eins af þeim ráðuneytum sem fara með þessi mál og það vantar ekki góðan vilja þeirra embættismanna sem ég leita þar til en hins vegar vantar mikið upp á að þeim sé kleift að gefa þær mikilvægu upplýsingar sem ég hef verið að leita eftir. Þetta finnst mér mjög alvarlegt. Það hafa gjarnan komið þau svör að þetta sé rétt á leiðinni og ég treysti því að þegar hæstv. landbrh. kemur hér til umræðu og ég vona að það fari að styttast í það þá munum við fá svör við þeim áleitnu spurningum: Hillir eitthvað undir að þessi nefnd skili af sér, hillir eitthvað undir að við fáum að vita um hvað er verið að ræða? --- Ég sé að hæstv. ráðherra er kominn hér og ég vona að hann treysti sér til að koma inn í þingsalinn. Getur hæstv. forseti gert hæstv. ráðherra viðvart þannig að hann heyri spurninguna? Hún er ekki nema ein og ég sé að hæstv. utanrrh. er hér líka. --- Geta hæstv. ráðherrar svarað þeirri spurningu hvort ríkisstjórnin sé búin að ná samkomulagi eða niðurstöðu í þeim alvarlegu deilumálum sem hér komu upp um meðferð tollígilda og lágmarksaðgangs landbúnaðarvara til landsins? Þetta eru grundvallarspurningar sem varða íslenskan landbúnað og fyrr en botn er kominn í þetta og möguleiki til þess að leggja mat á hver niðurstaðan er þá er tómt mál að tala um niðurstöðu í þessari umræðu um GATT og WTO stofnunina sem sett verður á laggirnar núna innan skamms.
    En ég ítreka þá skoðun mína að ég tel að í meginatriðum þá sé með GATT stigið heillavænlegt skref í átt að greiðari alþjóðaviðskiptum og ég treysti því að sú tilhneiging sem er til þess að það verði gert í sátt við vistkerfi jarðarinnar muni verða sterkari þegar fram líða stundir.