Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:28:44 (2041)


[14:28]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir hans svör. Mér finnst að þau hafi afhjúpað það að enn er ágreiningur uppi og ég mun þá verða leiðrétt hér síðar ef svo er ekki. Álitamál eru að mínu mati það sem ekki er búið að skera úr um og í mínum huga er það enn ágreiningur. Það verður vissulega fróðlegt að fylgjast með störfum Norðmanna og hæstv. utanrrh. hvíslaði því að mér að þau gengju vel. Ég veit ekki hvað hæstv. landbrh. þykir um það, ef hæstv. utanrrh. þykir það ganga vel þá getur vel verið að þeirra skoðanir fari þar saman og þeirra mat farið saman. En það munum við fá að vita. En ég ítreka það enn og aftur að það má ekki dragast of lengi, við megum ekki vera í of mikilli tímaþröng þegar við fjöllum um þetta mikilvæga mál á lokaspretti og það á við um okkur sem verðum nú að fjalla um þessi mál með nokkur atriði ögn óljós.