Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:31:47 (2044)


[14:31]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég biðst að sjálfsögðu forláts á því að hafa látið það eftir mér að brosa út í annað þegar hæstv. landbrh. var að svara með sínum skilmerkilega hætti um stöðu málsins í ráðherranefndinni. Það var eins og allir heyrðu ákaflega skýrt hvernig hæstv. ráðherra útlistaði það mál og ég skildi hann þannig að hann væri að segja að það væri að vísu ekkert samkomulag í nefndinni en á hinn bóginn hefðu menn ekki flogist þar á þannig að það var ekki rétt að tala þar um mikinn ágreining.
    Ég tel, hæstv. forseti, að það sé í heildina tekið jákvætt að þessi víðtæka samningagerð um alþjóðaviðskiptahætti eins og Úrúgvæ-lota GATT-samninganna er, hún sé nú að komast í höfn en það er þó ekki þar með sagt að hún sé öll á þann veg sem ég hefði helst kosið. Ég tel að um samningagerðina í heild

verði því miður að segja eins og margt annað í alþjóðaviðskiptum að hún sé fyrst og fremst klæðskerasaumuð að þörfum hinna stóru og hinna sterku. Ég hefði gjarnan viljað sjá miklu meiri áfanga nást í því að betrumbæta viðskiptahætti gagnvart þróunarríkjunum og þriðja heiminum. Ég hefði viljað sjá umhverfismál koma með miklu skýrari hætti inn í grundvöll þessarar samningagerðar og fleira þar fram eftir götunum. Það er vel þekkt og það vita þeir sem fylgdust með þessu ferli að á lokasprettinum voru það fyrst og fremst stóru viðskiptablokkirnar, Bandaríkjamenn, Evrópusambandið og að nokkru leyti Asíuríkin sem útkljáðu málið í sinn hóp og svo var komið undir lokin að aðrir aðilar að samningnum biðu hreinlega átekta og Bandaríkjamenn og Evrópusambandið sátu ein á fundum þar sem stærstu álitamálin voru útkljáð. Samningurinn ber þetta að sjálfsögðu með sér. Hann er fyrst og fremst sniðinn að þörfum stóru iðnríkjanna og fjármagnsveldanna í heiminum en miklu minna því miður að því að greiða götu þróunarríkjanna og þriðja heims ríkjanna inn á heimsmarkaðinn. Það var þó öðrum þræði hinn yfirlýsti tilgangur en þegar til kastanna kom voru það hagsmunir iðnríkjanna sem réðu ferðinni.
    Ég vil í fyrsta lagi spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna sú leið er valin að fullgilda samninginn með þáltill. en ekki lagafrv. Það er að vísu aðeins um það fjallað í greinargerð en ég vil spyrja líka í samhengi við breytingar og viðbætur við þessa samningagerð á síðari stigum hvort það sé í sjálfu sér eðlilegt að fara yfir í þingsályktunartillöguformið þegar svona viðamikið mál eru á ferðinni. Í öðru lagi óska ég eftir því að hér verði veitt einhver alvörusvör um stöðu málsins í ráðherranefndinni sem skipuð var 3. mars sl. --- Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan að hæstv. landbrh. léti svo lítið að vera inni í salnum, tolla hér augnablik. Það eru engir mannasiðir hvernig ráðherrarnir hegða sér í umræðum af þessu tagi að þeir rjúka út um leið og þeir hafa sjálfir notað forgang sinn hér á mælendaskránni ( Landbrh.: Ég rétt skrapp út.) Já, ég óska eftir því að hæstv. ráðherra reyni að halda sér ofan í stólnum augnablik. Hann heldur sér nógu fast í hann þegar ríkisstjórnin er í hættu alla vega. Ég óska eftir því að hér verði gefin einhver svör með það hvers sé að vænta með þau lagafrumvörp sem eiga að fylgja þessu máli. Auðvitað er það þannig að málið ber ekki fyrir þingið í þeim búningi sem það ætti að gera. Hér ættu að sjálfsögðu að liggja fyrir frumvörp um breytingu á búvörulögum og tollalögum og öðrum þeim sem þurfa að koma og það ætti að liggja fyrir pólitísk stefnumótun ríkisstjórnarinnar um meðferð þessa máls vegna þess að það er svo og ég veit að hæstv. utanrrh. getur staðfest það að meðferð þeirra heimilda sem við höfum til að leggja á jöfnunagjöld, til að mynda á innfluttar búvörur, er pólitísk ákvörðun. Það er ekki bara tæknilegt úrlausnarefni heldur líka pólitískt vegna þess að hér eru á ferðinni heimildir en ekki einhverjir bundnir fastar. Með öðrum orðum, hæstv. ríkisstjórn eða Alþingi þarf að móta stefnu um og taka pólitískar ákvarðanir um það í hvaða mæli þessar heimildir verða nýttar og hvernig. Það er ekki tæknivinna heldur spurning um pólitíska stefnumörkun og ég óska eftir að hér verði gefnar upplýsingar um það. Þetta eru engin svör að segja að nefndin muni vonandi fljótlega kannski skila einhverju. Það sé ekki ágreiningur en á hinn bóginn sé ekki samkomulag. Hverju erum við nær, eins og hæstv. ráðherra svaraði hér áðan?
    Þá vil ég í fjórða lagi óska eftir því að hæstv. ráðherrar upplýsi um stöðu heilbrigðissamningsins eða viðaukans og sérstaklega varðandi það grundvallaratriði í hvaða mæli má beita ráðstöfunum sem lúta að því að varðveita hollustu og heilbrigði dýra og plantna og ég vil spyrja hver sönnunarbyrðina beri í slíkum tilvikum. Nú er það þannig skv. 2. og 3. tölul. 2. gr. heilbrigðissamningsins að slíkum ráðstöfunum má aðeins beita að því marki að nauðsynlegt sé til að vernda líf eða heilbrigði manna, dýra eða plantna og að þær byggist á vísindalegum meginreglum og sé ekki viðhaldið án fullnægjandi vísindalegra sönnunargagna. Með öðrum orðum, það er greinilega gert ráð fyrir því í að sanna þurfi að nauðsynlegt sé að beita þessum tilteknu heilbrigðisreglum. Hver ber sönnunarbyrðina? Til að koma með einfalt dæmi þannig að hugsanlega gæti komið eitthvert svar sem vit væri í frá hæstv. ráðherrum, ef Nýsjálendingar vefengja það að í innflutningi á hráu kjöti frá Nýja-Sjálandi felist sjúkdómahætta, hverjum ber þá að sanna að svo sé ef takmarka á innflutning á þeim grundvelli hingað? Eru það þeir eða við sem þurfa að sýna fram á með vísindalegum rökum og prófunum að í þessum innflutningi gæti falist hætta eða hinum megin frá að í honum felist ekki hætta? Og óska eftir skýrum svörum við þessu og ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðherrar séu kunnugir þessu máli.
    Ég vildi gjarnan að hæstv. utanrrh. eða utanríkisviðskrh. gerði aðeins betri grein fyrir starfsemi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og því hvaða skuldbindingar við öxlum með aðild að henni, hvaða kostnaður verði því samfara, hversu viðamikil okkar þátttaka verður í stofnuninni. Verður þar um að ræða að halda úti fastri sendinefnd eða fulltrúum af einhverju tagi o.s.frv.? Hvað liggur fyrir um hvað mikið bákn þetta verður, með hvaða kostnaði o.s.frv.?
    Það er auðvitað enginn vafi, hæstv. forseti, að sú atvinnugrein sem verður í bráð fyrir mestum áhrifum af þessum samningi og e.t.v. líka í lengd er landbúnaðurinn. Þess vegna endurtek ég það og undirstrika að það skiptir miklu máli hvaða pólitísk stefnumörkun fylgir með um leið og þessi samningur er fullgiltur því að við höfum það að verulegu leyti í okkar höndum hvernig við förum með þær heimildir sem við þó þarna höfum. Það er alveg fyrir neðan allar hellur að þetta mál skuli eftir 8 mánuði í nefnd vera nákvæmlega jafnfast þar eins og það var daginn sem nefndin var skipuð. Það vita allir að nefndaskipunin og frestun málsins hér á þingi var vegna þess að ríkisstjórnin var við það að falla á illdeilum um þetta mál og þess vegna eru það auðvitað engin svör að koma hér eins og hæstv. ráðherrar hafa nú gert.
    Að lokum, hæstv. forseti, varðandi ávinning okkar af þessu í beinum tollalækkunum, þá hafa verið sagðar af því nokkrar sögur, til að mynda varðandi Bandaríkin, að þar værum við að fá verulegar tollalækkanir. Það broslega er að þegar það er skoðað, þá eru raunverulegir tollar á allan útflutning okkar til Bandaríkjanna ekki nema 0,7% og samkvæmt nýjum gögnum sem ég hef í höndunum hefur tollastofnun Bandaríkjanna nýlega ákveðið að hætta að innheimta mest af þessum tollum vegna þess að það svari ekki kostnaði. Ég bið menn þess vegna að tala varlega um mikla ávinninga af niðurfellingum af þessu tagi. Hitt hygg ég að muni skipta mestu máli, hæstv. forseti, og er ég þá að ljúka máli mínu að sú meginregla sem í samningagerðinni felst, þ.e. jafnvægis- eða bestukjaraviðskiptareglan kann að nýtast okkur í talsverðum mæli við að vinna okkur markaði á nýjum svæðum og ég hygg að þegar frá líður muni það verða sú regla þessa samnings sem muni skipta okkur mestu máli fyrir utan þau neikvæðu áhrif eða þær hættur sem að landbúnaðinum steðja í þessari samningagerð.