Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:41:14 (2045)


[14:41]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég hygg að hv. þm. þekki raunar svarið við þeirri spurningu sem hann lagði fram. Sönnunarbyrðin er bæði Nýsjálendinga og Íslendinga ef við tökum það dæmi. Í okkar hlut kemur að sanna það að sá sjúkdómur sem við óttumst eða sjúkdómar séu ekki hér á landi og Nýsjálendingar sýna fram á að þeir sjúkdómar séu heldur ekki á þeirra landi sem við óttumst. Síðan er það auðvitað vísindalegt mat hvort það er talin ærin ástæða til þess að standa gegn innflutningi frá Nýja-Sjálandi, en ég held að við verðum að viðurkenna það ef við viljum vera hreinskilin að við getum ekki fyrir fram til lengdar fullyrt að ekki komi til innflutnings á hráum sláturafurðum úr hvaða landi sem er í veröldinni. Ég held að við getum ekki fullyrt slíkt fyrir fram en sönnunarbyrðin er beggja.