Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:42:27 (2046)


[14:42]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir svörin, en ég held að það sé mikilvægt að þetta liggi hér fyrir vegna þess að hinu gagnstæða hefur verið haldið fram. Ég hef orðið var við það meðal bænda að þeir eru sumir í þeirri trú hvaðan sem þær misvísandi upplýsingar eru komnar að í þessum heilbrigðisviðauka samningsins felist vörn til handa okkur varðandi innflutning á hrámeti, hráu kjöti og gerilsneyddum mjólkurvörum svo að dæmi sé tekið. Þegar samningsniðurstaðan og textinn eru hins vegar athuguð þá er alveg augljóst mál að svo er ekki nema með þessum vísindalegu rökum og aðferðum sé reynt að sýna fram á að svo sé. Jafnvel það hlýtur að byggjast á mati á því hvort réttlætanlegt sé að gera ráðstafanir sem í reynd fela í sér viðskiptahindranir vegna þess að ég get ekki séð annað samkvæmt textanum en þar eigi að vega og meta mismunandi hagsmuni saman og það sé ekki réttlætanlegt samkvæmt texta samningsins að beita innflutningstakmörkunum í formi heilbrigðistakmarkana þó að einhver sjúkdómahætta geti verið því samfara nema unnt sé að sýna fram á að það tjón sem af völdum sjúkdóms mundi leiða yrði meira og þar sé í raun og veru um meiri hagsmuni fyrir minni að ræða. Þannig held ég að samningstextinn sé og út af fyrir sig geri ég ekki ágreining við túlkun hæstv. landbrh. á því hvernig sönnunarbyrðin liggi. Þar verður hver að sjá um sitt, það held ég að sé alveg hárrétt. En ég held að það sé mjög mikilvægt og í raun og veru staðfest hér að þetta mál stendur svona og menn geta þess vegna ekki sett traust sitt á það að í þessari samningsniðurstöðu felist réttur af okkar hálfu til að banna innflutning af hrámeti eins og verið hefur. Það er verið að afnema hann með þessum samningum.