Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 14:56:31 (2050)


[14:56]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég skora á hæstv. ráðherra að koma upp, og hæstv. ráðherra getur gert það hér í lengra máli en andsvari, og gera grein fyrir því hvar grunnvinnan stendur. Því neitar hæstv. ráðherra og vísar til þess að Norðmenn hafi rétt verið að klára sína vinnu. Ef samstarfið var svona náið, hæstv. ráðherra, var okkur í lófa lagið að leggja fram okkar tillögur samhliða Norðmönnunum. En nú liggur ljóst fyrir að Norðmenn hafa lagt fram sínar tillögur en ekkert liggur fyrir um það hvenær tillögurnar komi frá okkur. Allt bendir til þess að ástæðan fyrir því sé sú að innan ríkisstjórnarinnar er einfaldlega bullandi ágreiningur og hæstv. landbrh. hefur mistekist algerlega að ná nokkru samkomulagi við samstarfsflokkinn sem kemur fram í því að hæstv. ráðherra kemur ekki nokkru máli fram.
    Virðulegur forseti. Ég ítreka einnig þá spurningu sem ég bar fram áðan: Hvaða viðhorf eru uppi og hvaða línu er þar búið að leggja varðandi lágmarksaðganginn? Nú hefur hæstv. ráðherra tækifæri til þess að segja frá því hvernig starfi sérfræðingahópsins miðar áfram. Þetta er grundvallaratriði, hæstv. ráðherra. Ef svarið er það að um ekkert liggi ljóst fyrir í dag þá staðfestir það hvert einasta orð sem ég hef sagt um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í málinu.