Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 15:51:53 (2067)


[15:51]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Nú er uppgjöf hæstv. ráðherra og ríkisstjórnarinnar algjör og það er farið að leita eftir leiðsögn hjá einstökum þingmönnum um það hvernig þeir vilji framkvæma þetta. Þetta mál er ekki á ábyrgð okkar í stjórnarandstöðunni í dag, það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Hæstv. ráðherra kom hér og sagði í fullri hreinskilni: Það er ekki búið að ræða þetta mál í ríkisstjórninni og þar er engin samstaða um það.
    Hann talar um það að embættismannanefndin eigi að koma með tillögur. Ég hef fært að því rök, virðulegur forseti, að í þessu máli getur embættismannanefndin ekki lagt hinar pólitísku línur. Það verður ríkisstjórnin að gera og hæstv. ráðherra er búinn að segja úr ræðustól að það hafi ekki enn verið gert. Málið er komið hér og er að fara til nefndar. Formaður utanrmn. segir að við verðum að afgreiða þetta fyrir jól. Það eru eftir þrjár vikur. Það er ansi stuttur tími miðað við þá átta mánuði sem embættismannanefndin er búin að hafa fram að þessu.
    Það er hér staðfest, virðulegur forseti, að í þessu máli, þ.e. hvernig á að taka á landbúnaðarþætti GATT-samkomulagsins, er ekkert unnið. Þar stendur ríkisstjórnin algjörlega á gati.