Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:14:36 (2074)


[16:14]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hv. 9. þm. Reykv. að það væri æskilegt út af fyrir sig ef unnt væri að fá umræðu um þennan merkilega samning á hinu háa Alþingi fremur en einfalt framhald af þessari þráhyggju um verndarstefnu í landbúnaði sem ríður svo húsum að menn fást ekki til þess að hugsa um annað. Það hefur nánast ekkert verið vikið að GATT-samningnum, um hvað hann er eða til hvers hann er heldur er niðurstaðan eiginlega sú að þetta snúist bara um þann þátt samningsins sem lýtur að breytingum á viðskiptum með landbúnaðarafurðir þar sem markmiðið er að auka frjálsræði en ekki að efla verndarstefnu.
    Annað merkilegt sem fram kom í þessari umræðu er náttúrlega hið ljúfa tilhugalíf sem birtist í þessum ræðustól milli hv. 9. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Reykv. sem minnir mann á það þegar unglingarnir eru að uppgötva kynlífið í fyrsta sinn og liggur við að það hvarfli að manni að maður eigi ekki að vera viðstaddur svona tilhleypingar.
    Þær spurningar sem hér komu fram voru ekki margar en þó nokkrar. T.d. var spurt hvers vegna málið væri í formi þáltill. frekar en lagafrv. Svarið við því er þetta: Við teljum æskilegast að þetta verði gert frekar í þingsályktun en með lögum þar sem hér er um að ræða samning sem fjallar um samskipti ríkja á viðskiptasviðinu og því geta einungis ríki en ekki einstaklingar eða fyrirtæki leitað til stofnunarinnar. Þá verða ýmsir sérsamninganna endurskoðaðir reglulega og það mundi kalla á endurteknar lagabreytingar í samræmi við það ef samningurinn yrði lögfestur. Þess skal getið að það varð að samkomulagi í samstarfi Norðurlandahópsins að við hefðum öll sama háttinn á, að þetta yrði gert með þáltill.
    Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði um Alþjóðaviðskiptastofnunina og þá sérstaklega hvort Íslendingar yrðu að koma þar upp sérstakri sendinefnd og hver yrði kostnaðurinn. Það er gert ráð fyrir því að framlag Íslands fyrir árið 1995 verði um 65.000 svissneskir frankar eða tæpar 3,4 millj. ísl. kr. en var fyrir árið 1994 ríflega 46.000 svissneskir frankar eða tæpar 2,4 millj. kr. Hækkunin er því um 1 millj. á ári. Það er engin breyting að því er varðar sendinefnd hjá GATT. Það eru okkar fastafulltrúar hjá EFTA sem sinna því hlutverki í Genf og munu gera það áfram.
    Þá var vakin upp sú spurning hvernig unnt væri að tryggja framkvæmdina og þá sérstaklega bestukjarareglunnar. Því er til að svara að sá samningur sem hér er gerður um stofnunina, um styrkingu á framkvæmdarvaldi, um lausn deilumála þýðir að þetta viðskiptasamstarf breytir algjörlega um eðli. Það má nefna tvennt til. Í fyrsta lagi þá reglubundnu skoðun sem viðskiptastefna hvers lands verður að sæta þannig að hún er gegnsæ og það er fylgst með því kerfisbundið að ríkið virði þær skuldbindingar sem það tekur sér á herðar. Í annað stað ef kærumál koma upp þá fara þau fyrir úrskurðaraðila, panel, og nú er ekki hægt að beita stórveldispólitík, þ.e. áður var unnt að beita neitunarvaldi en nú verður því ekki lengur viðkomið. Eftirfylgnin og framkvæmd samningsins er því miklu öflugri en áður.
    Hv. þm. Páll Pétursson spurði hvernig bæri að skilja útlistun bestukjarareglunnar og sérstaklega að því er varðar sérkjör sem náðst hafa með samkomulagi, tilboðum og gagntilboðum milli landa. Ef við tökum dæmi af Nýja-Sjálandi sem hefði gert samning við Kanada og náð þar sérákvæðum fyrir innflutning á nýsjálensku dilkakjöti til Kanada þá þýðir bestukjarareglan það einfaldlega að allir aðrir samningsaðilar

njóta þessara kjara. Það eru fjölmargir slíkir þættir fyrir utan þau tilboð sem við höfum vikið að sem við höfum náð fram sem bæta þannig markaðsaðstöðu í einstökum löndum.
    Nokkuð hefur verið rætt um hlut þróunarríkja. Um það er að segja að sá mikli ávinningur sem af samningnum hlýst skiptist í stórum dráttum, með nokkurri einföldun þó, til þriðjunga milli iðnríkjanna, milli landbúnaðarútflutningsríkjanna og milli þróunarríkjanna. Stærstu hagsmunir þróunarríkjanna voru náttúrlega að lengra hefði verið gengið í þá átt að greiða fyrir viðskiptum með landbúnaðarafurðir og hráefni. Því miður náðist ekki nema lítill áfangi af þeirri leið. Það hefði skilað langmestum árangri í að jafna kjör í heimsbyggðinni sem kunnugt er. Þeim tókst þó t.d. að ná verulegum áfanga í fríverslun með vefnaðarvörur sem mun bæta þeirra hag. Þegar á heildina er litið er ávinningur þeirra allverulegur. En hann verður þó fyrst og fremst í næstu lotu þegar lengra hefur verið gengið í þá átt að opna fyrir viðskipti með matvæli.
    Virðulegi forseti. Það var spurt mikið í þráhyggjunni um nefnd undir forustu forsrn. sem vinnur að breytingu á lögum til að útfæra framkvæmd þessa samnings. Ég vék að helstu lagabálkunum sem þarf að endurskoða, þeir eru tíu talsins. Þegar menn spyrja hvaða pólitíska stefna hefur verið mörkuð í þessu efni þá er því til að svara að ekki er nema takmarkað svigrúm til pólitískrar stefnumörkunar umfram það sem fyrir liggur í þessum samningi. Verkefnin sem fyrir liggja eru þessi:
    Í fyrsta lagi þarf að ákveða tollígildin, þ.e. hámark þeirra tolla sem eiga að tryggja jafnstöðu innlendra framleiðenda í upphafi. Það er rétt sem fram kom í máli hv. þm. Jóhannesar Geirs Sigurgeirssonar að hér er um að ræða heimildarákvæði því þetta eru tollbindingar sem gefa yfirleitt heimild til hærri tollaákvarðana en nauðsynleg eru til þess að tryggja þessa jafnstöðu. Staða málsins í nefndinni er mér tjáð að sé sú að þetta sé fyrst og fremst tollalagamál. Þarna er vinna sem er ekki lokið á vegum fjmrn. í samráði við landbrn. Þessir aðilar eiga eftir að skila niðurstöðum þessarar vinnu til nefndarinnar og þá munu fulltrúar ráðuneytanna hafa forsendur til, mál fyrir mál og tollflokk fyrir tollflokk, að komast að samkomulagi eða málamiðlun um hvar þessum tollum er stillt.
    Í annan stað er það skuldbinding að magntakmarkanir verða ekki lengur leyfilegar nema í undantekningartilfellum, t.d. vegna smithættu. Það þarf að ganga frá því og skilgreina það nákvæmlega.
    Í þriðja lagi verður óheimilt að hafa innflutningsgjöldin breytileg samkvæmt grundvallarreglum GATT. Þau verða að vera skýr og fyrir fram ákvörðuð og slíkt kallar einnig á breytingar á búvörulögum þó þetta sé formbreyting fremur en efnisleg.
    Samkvæmt framansögðu eru hámarkstollar ákveðnir fyrir allar vörutegundir og um það gilda tvær sérreglur. Annars vegar er reglan um ríkjandi markaðsaðgang. Samkvæmt henni mega þær tollahækkanir sem samningarnir heimila ekki leiða til þess að markaðsaðgangur skerðist miðað við viðmiðunartímabilið frá 1986 til 1988. Sem dæmi um þetta má nefna að hafi 50 tonn af osti verið flutt inn á árinu 1988 tollfrjálst þá ber áfram að leyfa slíkan innflutning af því magni tollfrjálst þó sett verði tollígildi upp að einhverju marki á umframinnflutninginn.
    Önnur sérregla fjallar um lágmarksmarkaðsaðgang. Samkvæmt henni verður að heimila innflutning á 3% af neyslu á lágum tollum sem eykst upp í 5% á sex árum. Þarna er hámark. Lágu tollarnir mega ekki vera meiri en 32% af tollbindingu en eiga samkvæmt skilningi GATT að vera mjög lágir. Þarna verður togast á um það út frá hagsmunum neytenda og framleiðenda en þarna er alla vega hámark og þriðjungur af hámarkstollbindingu er þrátt fyrir allt veruleg lækkun.
    Þrjár meginleiðir hafa verið til athugunar varðandi útdeilingu á kvótum, þ.e. að því er varðar framkvæmdina á lágtollainnflutningnum. Um það spurði hv. þm. og það er það sem nefndin á að taka afstöðu til. Ég get lýst minni afstöðu af því að um það var spurt. Það eru þrír kostir sem koma til greina. Í fyrsta lagi útboð eða uppboð en sú leið hefur þann meginókost að hún mun leiða til hækkunar á innflutningsverði til neytenda. Annar kostur er að láta hlutkesti ráða úthlutun meðal umsækjenda um innflutningsleyfi. Þetta mun ekki hafa neikvæð áhrif á verðlagninguna og eini vandinn er að skilgreina umsækjendahópinn. Þriðja leiðin væri sú að þeir fái innflutningskvótann sem eru fyrstir á vettvang. Það hefur praktíst talað þær neikvæðu afleiðingar að menn keppast um að vera fyrstir á hafnarbakkann þannig að það getur verið léleg nýting samkvæmt þeirri leið. Ég hallast að kosti tvö vegna þess að hann mundi tryggja best hagsmuni neytenda, þ.e. tryggja best lægstu hugsanleg verð.
    Ég endurtek að þessi nefnd er starfandi á forræði forsrn. og verkstjórnarmaður er ráðuneytisstjórinn í forsrn. Það er rétt sem kom fram í máli hv. 3. þm. Reykv., formanns utanrmn., að þessu verki verður að ljúka fyrir áramót þannig að tíminn til stefnu er naumur en verkið er þannig statt, af því að menn spyrja um pólitíska stefnumörkun, að ekki hefur verið skilað á borð nefndarinnar tæknivinnunni frá fjmrn. og landbrn. og pólitísk stefnumörkun eða málamiðlun um nákvæma stillingu tollverndarinnar getur ekki farið fram fyrr en þessari tæknilegu undirbúningsvinnu er lokið.