Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:36:13 (2082)


[16:36]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þarf að endurtaka viðvörunarorð mín um orðanotkun við hv. þm. Seint mundi hv. þm. væntanlega ganga svo langt að kalla hv. þm. Egil bónda á Seljavöllum brálaðan frjálshyggjugaur, en sem kunnugt er þá hafa mál þróast hér svo á hinu háa Alþingi að þeir hafa staðið þétt saman, formaður Sjálfstfl. og forsrh. og hv. þm. Egill, um það að standa trúan vörð um það að í engu verði veikt sú tollvernd sem innlendur landbúnaður hefur. Þannig að ég bið nú hv. þm. að teygja ekki þanþol tungumálsins í þær öfgar að helstu málsvarar framsóknarstefnunnar hér á hinu háa Alþingi, eins og hv. þm. á Seljavöllum, séu kallaðir frjálshyggjugaurar að þeim fjarstöddum.