Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:38:32 (2084)


[16:38]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er nauðsynlegt að leiðrétta þennan misskilning. Það sem ég átti við er þetta: Að láta hlutkesti ráða úthlutun meðal umsækjenda um innflutningsleyfi. Með öðrum orðum, þessi kvóti yrði auglýstur og mönnum frjálst að sækja um innflutningsleyfi, en síðan réði hlutkesti hver fengi. Ég mælti með þessari leið, ekki vegna þess að hún væri góð, því að öll skömmtunarkerfi eru af hinu vonda, heldur vegna

þess að þetta er eina leiðin sem menn hafa bent á sem mun ekki bitna á neytendum. Hún gæti skilað því lágmarksverði sem hér gefst kostur á á annað borð. En hópurinn sem fengi að sækja um yrði ekki þrengdur með stjórnvaldsákvörðunum heldur yrði auglýst og menn mættu sækja um og síðan réði hlutkesti.