Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:41:50 (2087)


[16:41]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Mig langar að gera tilraun til að spyrja hæstv. landbrh. tveggja spurninga. Sú fyrri varðar möguleikana á að setja útflutningsbætur. Mig langar til þess að hann geri hv. Alþingi grein fyrir því hvort hann telji að GATT-samningurinn sé þannig, eins og a.m.k. mér finnst ég lesa hann, að það sé ekki um að ræða að hægt sé að setja á útflutningsbætur ef við það viljum og ég vil gjarnan heyra álit hæstv. landbrh. á því hvort hann hafi fundið leið til að nýta möguleika á að setja á útflutningsbætur. ( Gripið fram í: Á hvað?) Á landbúnaðarafurðir sem við viljum flytja til annarra landa. Þá er ég fyrst og fremst að tala um dilkakjöt sem menn hafa auðvitað áhuga á að flytja út og í sjálfu sér er það mjög óeðlilegt að Íslendingar einir þjóða hafi ekki möguleika á að nýta sér þá aðferð ef þeir kæra sig um. Nú er ég ekki að leggja það til hér, en ég tel að það sé a.m.k. full ástæða til þess að skoða þann möguleika á meðan menn eru að leita uppi markaði fyrir íslenskt dilkakjöt erlendis.
    Önnur spurning er sú að hæstv. utanrrh. lýsti því hér áðan að hann teldi að það væri sniðug aðferð að búa til einhvers konar happdrætti um það hverjir eigi að fá möguleika á því að nýta sér innflutning og dreifingu á þeim vörum sem á að flytja inn undir þessum lágu tollum sem hér hefur verið talað um, hvort hæstv. landbrh. er sama sinnis. En mig langar til þess að segja það um þetta efni að ég tel að þetta sé hið versta vandræðamál og mér finnst spurning hvort menn verði ekki að meðhöndla það með alveg sérstökum hætti og set það hér fram hvort menn hafi velt þeirri hugmynd fyrir sér að gefa einhverjum aðilum hér í landinu, ég nefni bara íþróttafélög, líknarfélög eða einhverjum tilteknum aðilum, kost á því að flytja þessar vörur inn og dreifa þeim vegna þess að það er fyrirsjáanlegt að þetta verður hið versta klúður. Því þó svo að farið verði að tillögu hæstv. utanrrh. og hér verði haft einhvers konar lottó um það hverjir eigi að fá að flytja þetta inn þá er það fyrirséð líka að það er ekkert sem segir að neytendur fái að njóta þessara lágu tolla því það er frjáls álagning í þessu landi og samkeppnin við hinar vörurnar sem eru á markaðnum ræður auðvitað verðinu. Þannig að það er ekkert sem segir að þessar vörur verði seldar á eitthvað miklu lægra verði heldur en aðrar sambærilegar vörur. Menn þurfa einungis að lækka sig svolítið niður fyrir samkeppnismöguleika hinna og þá geta þeir hirt allan mismuninn. Ég spyr hæstv. landbrh. hvað hann hefur til ráða.