Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:45:18 (2088)


[16:45]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Um fyrri spurninguna er það að segja, eins og ég sagði áðan, að heimildir eru til þess að greiða útflutningsbætur á dilkakjöt. Það má segja að þurfi að skerða þær um 36% frá viðmiðunarárum. Það kom áður fram fyrirspurn um hvort það mætti greiða útflutningsbætur á refaskinn. Ég man ekki hvernig það var á viðmiðunarárum en það var áreiðanlega um opinberan stuðning að ræða til refaræktarinnar þannig að einhvern slíkan stuðning verður heimilt að veita.
    Um síðari spurninguna er það að segja að það er auðvitað óskaplega vandræðalegt að fara út í það að hafa eitthvert happdrætti um það hverjir séu innflytjendur. Ég sé ekki að sú leið sé sérstaklega til hagsbóta fyrir neytendur. Yfirleitt finnst mér þetta hið mesta vandræðamál, þessi 3% lágmarksaðgangur, og má auðvitað færa gild rök fyrir því að haga þessum málum með öðrum hætti. Ég kýs á hinn bóginn að leiða það hjá mér um stund, ég vil fá að sjá þann rökstuðning sem kemur frá embættismannanefndinni um það hvernig hún telji rétt að standa að þessum málum. Ég hef ekki sannfærst um að þetta sé hin rétta leið og get m.a. bent á að með því að fara þessa leið þá er engin trygging fyrir því t.d. að þessi lágmarksaðgangur verði nýttur til þess að auka fjölbreytni í því ostavali sem er hér á landi svo ég taki það sem dæmi.