Samningur um stofnun Alþjóðaviðskiptastofnunar

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:50:21 (2093)


[16:50]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Mér finnst að hv. 5. þm. Reykv. hafi misskilið mig alveg. Ég hélt því alls ekki fram að verslunin mundi ekki bregðast við með því að bjóða lágt verð en kaupmenn eru af eðlilegum ástæðum í þeim sporum að vera að keppa á markaði og það er svo sem algjör óþarfi að vera að selja vöruna ódýrari en tilefni gefst til. Tilefnið er auðvitað samkeppni annarra. Þannig að fái menn vöru á eitthvað miklu lægra verði en aðrir þá þurfa þeir ekki að fara mjög langt niður fyrir verð þeirra sem þeir eru að keppa við. Það var það sem ég átti við hér að þarna væri verið að flytja inn vöru sem í innflutningi væri miklu ódýrari en möguleikar annarra sem tækju þátt í þessari samkeppni gæfu tilefni til og þar með myndaðist sá mismunur sem þarna er á ferðinni. Það hefur ekkert með það að gera að taka upp verðlagshöft eða því um líkt heldur einfaldlega að þetta klúðurslega ákvæði í GATT-samningnum sem við erum að tala um veldur mönnum þessum vanda. Ég segi það alveg eins og er að mér finnst það ósköp eðlilegt að það standi í ýmsum að koma með einhverja tillögu sem fellur að hugmyndum manna um það hvernig eigi að koma svona vöru inn á markaðinn.