Tryggingagjald

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 16:55:31 (2096)


[16:55]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég leyfi mér að flytja frv. til laga um breytingu á lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, með síðari breytingum. Á árinu 1990 voru samþykkt lög á Alþingi um tryggingagjald sem tóku gildi 1. jan. 1991. Í lögunum fólst töluverð einföldun og samræming sem m.a. kom fram í því að með lögunum voru launaskattur, lífeyristryggingagjald, slysatryggingagjald, vinnueftirlitsgjald og iðgjald í Atvinnuleysistryggingasjóð felld í eitt gjald, tryggingagjald.
    Þegar frv. var lagt fyrir Alþingi var lagt til að samræming launagjalda yrði gerð á þremur árum, þ.e. að sú mismunun sem er á milli atvinnugreina yrði felld niður í áföngum. Í meðförum þingsins var þessu breytt og ákveðið að fresta samræmingu á þessari gjaldtöku. Frá því að tryggingagjald kom fyrst í lög hefur tryggingagjald því verið lagt á í tveimur gjaldflokkum. Annars vegar almennum gjaldflokki þar sem hlutfallið er nú 6,35% af gjaldstofni og hins vegar í sérstökum gjaldflokki en þar er hlutfallið nú 3% af gjaldstofni.
    Í lögunum er skilgreint almennum orðum hvaða atvinnugreinar tilheyra hinu sérstaka gjaldflokki. Um nánari skilgreiningu hefur verið vísað til atvinnugreinaflokkunar Hagstofu Íslands. Sú atvinnuvegaflokkun hefur eigi verið birt með formlegum hætti. Hagstofa Íslands hefur unnið að útgáfu nýrrar atvinnuvegaflokkunar og mun hún verða birt á næstunni. Rétt þykir að breyta lögum um tryggingagjald þannig að samræmi sé á milli laganna og atvinnuvegaflokkunar Hagstofu Íslands. Þetta mun verða til þess að draga úr óvissu um það hvaða aðilar eiga að greiða tryggingagjald í sérstökum gjaldflokki. Það þykir því eðlilegt að í viðauka við lögin verði tilgreindar þær atvinnugreinar sem greiða eiga lægra tryggingagjald og er því lagt til að við lögin bætist viðauki þar sem þessar atvinnugreinar eru tilgreindar.
    Þá eru í frv. lagðar til breytingar á launaskattsframtalsskilum sjálfstætt starfandi manna með hliðsjón af breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 122/1993, um breytingar í skattamálum, en í þeim lögum var breytt ákvæðum tryggingagjaldslaga um ákvörðun á gjaldstofni vegna launa manns sem vinnur við eigin atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi.
    Í 1. gr. frv. er lögð til breyting á 2. mgr. 2. gr. laganna þar sem skilgreint er hvaða atvinnugreinar skuli vera í sérstökum gjaldflokki tryggingagjalds. Hér er ekki lögð til breyting á efni greinarinnar heldur er eingöngu um formbreytingu að ræða. Í greininni er gerð almenn grein fyrir þeim atvinnugreinum sem greiða eiga lægra tryggingagjald en síðan er í viðauka við lögin, sbr. 3. gr. frv., nákvæm upptalning á þeim atvinnugreinum sem falla í hinn sérstaka gjaldflokk. Ástæður þessara breytinga eru m.a. vegna nýlegs dóms Hæstaréttar. Þar var deilt um launaskattsskyldu en því var haldið fram af gjaldkrefjanda að starfsemi blikksmiðjunnar, sem var annar málsaðilinn, væri launaskattsskyld og var vísað til atvinnugreinaflokkunar Hagstofu Íslands. Með vísan til þess að sú atvinnugreinaflokkun hafði ekki verið birt með lögformlegum hætti komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að gjaldskylda blikksmiðjunnar yrði eigi á henni byggð. Sömu rök eiga að vísu ekki við um tryggingagjald og átti við um launaskatt á sínum tíma. Samt sem áður er æskilegt að það liggi fyrir í lögunum með nákvæmum hætti hverjir skuli teljast til hins sérstaka gjaldflokks. Í viðaukanum er, eins og kom fram hjá mér áður, byggt á nýrri atvinnugreinaflokkun Hagstofu Íslands sem bráðlega mun taka gildi og verður væntanlega birt innan tíðar á vegum Hagstofunnar.
    Ég bið hv. nefnd sem fær þetta mál til meðferðar um að kynna sér það og kalla til fulltrúa í ráðuneytinu sem geta afhent þessa nýju atvinnugreinaflokkun.
    Í 2. gr. frv. er lögð til breyting á launaframtalsskilum manna serm eru í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Lagt er til að kveðið verði á um að þeir skuli skila inn tveimur launaframtölum. Það byggist á því að gjaldstofn vegna launa mannsins sjálfs liggur ekki fyrir fyrr en hann hefur gert upp til skatts. Því getur hann ekki skilað inn launaframtali vegna eigin launa innan fyrra tímamarks. Eftir sem áður ber honum þó að skila inn launaframtali vegna launa launamanna á sama tíma og annar atvinnurekstur.
    Virðulegi forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um þetta frv. sem hér er til umræðu. Að svo mæltu legg ég til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.
    Ég ítreka það, virðulegi forseti, að þetta frv. felur fyrst og fremst í sér formbreytingu en ekki efnisbreytingu.