Tryggingagjald

45. fundur
Þriðjudaginn 29. nóvember 1994, kl. 17:00:12 (2097)


[17:03]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að ræða efni frv. sem slíks vegna þess að ég tel að það sé út af fyrir sig ekkert út á frv. að setja. En mig langar að koma því á framfæri til hv. nefndarmanna sem taka þetta til athugunar að þessi viðauki, þ.e. upptalningin á fyrirtækjunum sem eiga að vera í sérstökum gjaldflokki verði tekin til sérstakrar skoðunar. Ég geri það vegna þess að ég sé að það gæti orðið breyting með þessari upptalningu frá þeirri framkvæmd sem hefur verið á þessu að undanförnu. Ég sé að það er t.d. þannig að hér er talið upp gúmmí- og plastvörufyrirtæki, málmsmíði og viðgerðir, vélsmíði og vélaviðgerðir. En í lögunum frá 1990 er talað um fiskveiðar eða iðnað í 1., 2. eða 3. flokki atvinnuvegaflokkum Hagstofu Íslands og á grundvelli þessarar skilgreiningar hafa t.d. skipasmíðar verið í þessum gjaldflokki. Verði þetta orðalag þarna óbreytt er vafasamt að skipasmíðar verði að fullu í þessum sérstaka gjaldflokki vegna þess að það er töluverður hluti skipasmíðanna í formi bæði trésmíða og framleiðslu úr tefjaplasti sem ekki eru talin þarna upp svo að ég fer fram á það að menn velti því fyrir sér hvort það eru fleiri svona atriði. Ég er ekki kunnugur hvernig þetta hefur verið framkvæmt gagnvart öðrum aðilum sem þarna eru taldir upp en vegna þess að ég rak augun í þetta ákvæði vil ég benda hv. nefndarmönnum á það að skoða þessa upptalningu með þetta fyrir augum að það sé ekki verið að raska því sem hefur verið viðhaft við framkvæmd þessara mála að undanförnu því að mér skilst á hæstv. ráðherra að það hafi ekki verið meiningin.