Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:10:29 (2102)


[12:10]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég flyt ásamt hv. þm. Gísla S. Einarssyni till. til þál. um úttekt á vöruverði lífsnauðsynja og verðmun er ríkir á milli þéttbýlis og dreifbýlis. Með leyfi forseta hljóðar tillagan svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera nákvæma úttekt á vöruverði lífsnauðsynja og þeim mikla verðmun er ríkir á milli þéttbýlis og dreifbýlis í þeim efnum. Kannað verði sérstaklega hvaða ástæður valda slíkum verðmun. Þá er ríkisstjórninni falið að grípa til ráðstafana í ljósi úttektarinnar er miði að jöfnun verðlags á lífsnauðsynjum í landinu með því að vöruverð á landsbyggðinni megi lækka til samræmis við það sem almennt gerist á höfuðborgarsvæðinu.``
    Hæstv. forseti. Þannig hljóðar tillagan. Verðkannanir undanfarin ár hafa staðfest að gríðarlegur verðmunur er á brýnustu nauðsynjavörum á höfuðborgarsvæðinu annars vegar og landsbyggðinni hins vegar. Þessi mismunur hefur verið að aukast síðustu ár. Slíkt ástand hefur án efa mikil áhrif á búsetuþróun í landinu. Fólkið í strjálbýlinu geldur fyrir búsetu sína sem kemur fram í lakari lífskjörum þar sem fólk þarf að borga meira fyrir sömu vöru en t.d. á höfuðborgarsvæðinu. Nú hlýtur það að vera kappsmál að neytendur megi njóta sem hagstæðasts vöruverðs og sannarlega er það fagnaðarefni þegar versluninni tekst að bjóða neytendum lækkun á vöruverðinu, hvort sem það verður vegna aukinnar samkeppni, hagræðingar eða bættra viðskiptakjara. En sú spurning hlýtur að vakna hvort verslunin í landinu sitji við sama borð hvað

viðskiptakjör snertir, flutningskostnað og skattlagningu. Mikilvægt er að kannað verði rækilega hvort sú er raunin að landsbyggðarfólk niðurgreiði vöruverð á höfuðborgarsvæðinu vegna lakari viðskiptakjara er landsbyggðarverslunin býr við.
    Verslunin á landsbyggðinni á víða í vök að verjast. Þar liggja margar ástæður að baki. Fámenni að baki hverri verslun, hár fastur rekstrarkostnaður, kröfur um fjölbreytt vöruúrval og víðtæka þjónustu sem oft er erfitt að standa undir. Samkeppnisstaða landsbyggðarverslunarinnar samanborið við verslunarhætti á höfuðborgarsvæðinu er því veik. En aðgerðir stjórnvalda skipta hér einnig miklu máli, t.d. í skattamálum. Flutningskostnaður kemur af fullum þunga inn í vöruverðið. Skattlagning á slíkan kostnað hlýtur því að hækka verð vörunnar og rýra þar með lífskjör landsbyggðarfólks.
    Því er afar brýnt að kannað verði hver bein áhrif stjórnvaldsathafna eru á vöruverðið sem raska verðlagsmyndun eftir landshlutum og skapa aðstöðumun gagnvart lífskjörum eftir búsetu.
    Það hlýtur að vera vilji stjórnvalda á hverjum tíma að fólk búi við sem jöfnust lífskjör óháð búsetu. Sá aðstöðumunur, sem nú blasir við og birtist í misháu verðlagi á nauðsynjavörum eftir búsetu, er óviðunandi. Þessi þingsályktunartillaga beinist að því að leitað verði allra leiða til að ná megi fram lækkun á vöruverði á landsbyggðinni er miði að jöfnun lífskjara og að landsmenn megi allir sitja við sama borð.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til síðari umr. og efh.- og viðskn.