Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:44:25 (2108)


[12:44]
     Jón Kristjánsson (andsvar) :
    Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta hv. 5. þm. Reykv. í því að ég hafi farið með rangt mál. Ég sagði aldrei að litlar verslanir í Reykjavík byggju við annan kost en verslanir úti á landsbyggðinni í þessu efni. Munurinn er bara sá að þegar mælt er í verðkönnunum verðmunur úti á landi og í Reykjavík, þá er miðað við lægsta verð hér á þessu svæði, verðið í stórmörkuðum, og úti á landi eru eingöngu litlar verslanir sambærilegar við verslanir kaupmannsins á horninu í Reykjavík. Hér er verulegur verðmunur milli verslana eins og allir þekkja sem hafa verslað hér. Landsbyggðarverslunin er sambærileg að þessu leyti. Ég ítreka það svo að auðvitað er þetta mál tvíþætt og það er langsamlega mest sem verslunin getur gert í þessu sjálf með endurskipulagningu og með samstarfi og reyndar með beinum innflutningi. Landsbyggðarverslunin hefur gert það í stórum stíl, það er alveg rétt. Hér eru svæði á landinu sem munar ekki miklu á verði eins og t.d. Akureyrarsvæðið. Ég held að það muni sáralitlu eða engu á verði þar og hér í Reykjavík. En eigi að síður getur ríkisvaldið lagt sitt af mörkum a.m.k. að skattleggja ekki aðstöðumuninn í landinu.