Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 12:52:14 (2111)


[12:52]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hér hafa orðið um þá till. til þál. er ég flyt ásamt hv. þm. Gísla S. Einarssyni. Ég get nú tæpast tekið undir með hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni í sambandi við þau orð er hann lét falla hér síðast um það að þetta væri til þess að gera lítið vandamál. Ég mátti skilja orð hans svo að þetta væri lítið vandamál hið háa vöruverð lífsnauðsynja á landsbyggðinni. Ég veit að það eru til afmörkuð svæði þar sem hægt er að finna lágt vöruverð á landsbyggðinni og í líkingu við það lægsta sem gerist hér á höfuðborgarsvæðinu. En því miður þá þekkjum við dæmin um hið gagnstæða í langtum ríkari mæli þar sem verðmunurinn er svo hrikalegur að það verður að grípa til einhverra aðgerða. Við hv. þm. getum ekki horft upp á þennan mikla verðmun þó ekki nema að við flyttum svona till. til þál. og afgreiddum slíka tillögu frá þinginu sem er nú hógvær að innihaldi og felst í því að gerð verði úttekt á málinu til að það verði skoðað ofan í kjölinn og leitað verði allra leiða til að búa megi fólkinu sem býr við svo hátt verðlag betri kjör. Það er ekki hægt að sletta í góm eins og hv. þm. Svavar Gestsson gerði áðan. Hann er nú farinn og hlaupinn af hólmi. Ég skil það vel. Hv. þm. Svavar Gestsson sagði orðrétt áðan að það væri flókið vandamál að jafna lífskjörin í landinu. Það væri flókið vandamal að jafna lífskjörin. Ég held að það sé enginn flokkur í landinu sem hefur oftar notað þetta slagorð en Alþb. Að jafna lífskjörin. En nú þegar kemur fram till. til þál. um það að reyna að stíga skref í átt til jöfnunar lífskjara þá er það orðið flókið. Það mátti skilja á hv. ræðumanni að ekki væri mikill áhugi á því að takast á við það vandamál. Er þetta skýringin á því af hverju svo lítið var gert í þessum efnum á meðan Alþb. var í ríkisstjórn? Er þetta enn eitt dæmið um það að þegar líður að kosningum þá er hrópað hátt til jöfnunar lífskjara en að loknum kosningum er lítið um að verkin tali? Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að mér þótti ræða hv. þm. Svavars Gestssonar sorglegt dæmi um lítinn áhuga á að takast á við lífskjörin í landinu og þeirra sem minnst mega sín. Ég fagna því að hv. þm. Svavar Gestsson er mættur til að taka aftur þátt í umræðum og hlýða á mál mitt.
    Hér hafa komið til umræðu málefni húshitunar á köldum svæðum landsbyggðarinnar. Það er vissulega fagnaðarefni að það hefur þó náðst árangur til lækkunar á húshitun á köldu svæðunum. Langtum minni árangur en ég hefði viljað sjá. Það hefur þó orðið árangur sem felst í því að fjármunir til niðurgreiðslna á húshitun á köldu svæðunum hafa verið auknir en það hefði mátt gera betur. Vonandi getum við stigið eitt skref við yfirstandandi fjárlagagerð í þá átt að hækka niðurgreiðslurnar enn frekar. Þess vildi ég óska.
    Hæstv. forseti. Hér hefur verið spurt: Hvað á að gera? Í þessari tillögu felst að gera úttekt og síðan að ríkisstjórninni verði falið að grípa til ráðstafana í ljósi þeirrar úttektar. Það er erfitt að segja fyrir um það hverjar niðurstöður úttektar verða fyrr en hún hefur farið fram. Eigi að síður bendi ég á það í greinargerð með þáltill. að það megi m.a. huga að afnámi skattlagningar á flutningskostnað. Eins og kunnugt er þá leggst virðisaukaskatturinn á flutningskostnaðinn. Hvort sem hann felst í heildsöluverði vörunnar og það sé heildsalinn sem borgar flutningskostnaðinn eða hann sé lagður á í smásölunni þá hlýtur náttúrlega neytandinn sem slíkur að borga þetta verð hvar sem skattlagningin fer fram. Það liggur ljóst fyrir að það er enginn annar en neytandinn sem borgar þetta verð. Þetta er kostnaður sem er fyrir landsbyggðarverslunina og verður að takast á við. Það hefur margoft verið bent á hvort hér felist ekki í ákveðinn mismunur. Ef það næðist samstaða um það að taka af virðisaukaskattinn á flutningskostnaðinn þá væri það örugglega skref í rétta átt.
    Ég geri mér alveg ljóst að hér eru ekki lausnir í sjónmáli sem leysa þetta mál í einu vettvangi. Það þarf að vinna þetta mál og ná samstöðu um niðurstöður og vinna það skref fyrir skref. Þess vegna er þessi tillaga flutt um að hrinda þessari vinnu úr vör. Þess vegna er þetta ekki sýndartillaga, hv. þm. Svavar Gestsson, þetta er alvörutillaga sem miðar að því að stíga eitt skerf í þessa átt þótt hv. þm. Svavar Gestsson hafi ekki mikla trú á að það geti skilað miklum árangri. Það er kannski skýringin á því, hv. þm. Svavar Gestsson, að vöruverðið er hærra víða á landsbyggðinni en það ella þyrfti að vera vegna þess að slíkur áhugi þinn hefur verið um alllangt skeið á málinu. ( SvG: Það á að ávarpa þingmenn í þriðju persónu.)
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta að sinni. Ég vil leggja áherslu á að þetta mál geti fengið afgreiðslu hér á yfirstandandi þingi.
    Ég má nefna kannski eitt dæmi í viðbót og það varðar Samkeppnisstofnun. Það var síðast árið 1991 að Verðlagsstofnun gerði opinbera könnun á verðmun á vöruverði á milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðarinnar og þá kom í ljós mikill verðmunur. Það eru þrjú ár síðan þessi könnun fór fram. Síðan hefur Samkeppnisstofnun, sem tók við af Verðlagsstofnun, ekki látið slíka könnun fara fram. Það má spyrja að því hvort það geti verið til aðhalds í hinni frjálsu kapítalísku samkeppni, eins og hv. þm. Svavar Gestsson nefnir samkeppnina, að Samkeppnisstofnun verði gert að gera slíkar kannanir með skipulögðum hætti einu sinni eða oftar á ári til þess að það liggi fyrir hvernig staðan í þessum málum er hverju sinni.
    Það er ástæður fyrir því að Samkeppnisstofnun hefur ekki gert þetta eins og Verðlagsstofnun gerði áður en óþarfi að fara út í það að þessu sinni.