Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:16:10 (2119)


[13:16]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er hið merkasta mál sem er á dagskrá. Vissulega er þarft að Alþingi taki það til umræðu en ég get því miður ekki sagt að tillagan sem er til umræðu sem slík sé jafnmerk og málefnið sjálft. Út af fyrir sig er það svo að sjaldnast er ástæða til þess að leggjast gegn því að upplýsinga sé aflað eða úttekt gerð á hlutum. En það leitar samt stundum á mann að mál af þessu tagi séu meira flutt í friðþægingarskyni e.t.v. vegna þess að menn séu að einhverju leyti með vonda samvisku yfir því ástandi sem ríkir og ekkert hefur verið gert gagnvart um langt árabil. Nú vill svo til að flokkur hv. þm. hefur farið með viðskiptamál eða viðskrn. um alllangt árabil og allt of lengi auðvitað og á þeim tíma hefur sannast sagna ekkert verið gert til þess að jafna þennan aðstöðumun. Ég á erfitt með að muna eftir einu einasta atriði þar sem Alþfl., þessi mikli jafnaðarmannaflokkur, hefur farið með málin að þar hafi nokkuð áunnist í þessum efnum. Hafa þeir þó haft ýmislegt undir stjórnsýslu sinni sem hefði gefið þeim tilefni og tækifæri til að taka á málum.
    Staðreyndin er auðvitað sú eins og hefur komið fram í umræðunni að þessar upplýsingar liggja í grófum dráttum fyrir og ef menn eru að tala um vöruverðið sérstaklega, þ.e. ef maður tekur orðanna hljóðan í tillögunni bókstaflega, þá liggur það allt saman fyrir. Ég fullyrði að úttektir Verðlagsstofnunar og síðan Samkeppnisstofnunar á undanförnum árum gefa mjög skýra mynd af því hversu miklu hærra vöruverðið er á landsbyggðinni og menn hljóta að muna eftir því úr umfjöllun fjölmiðla á undanförnum árum. ( GunnS: Síðast 1991.) Staðreyndin er auðvitað sú, hv. þm., að ef svo er ekki þá er Samkeppnisstofnun að bregðast lagaskyldu sinn því það hvílir á henni sú ótvíræða lagaskylda að veita þessar upplýsingar. Ef menn nenna að hafa fyrir því að kynna sér hlutina þá bendi ég mönnum á að lesa 34. gr. samkeppnislaganna. Þar stendur, með leyfi forseta:
    ,,Í því skyni að stuðla að og efla virka samkeppni aflar Samkeppnisstofnun upplýsinga um verð, verðmyndun og önnur viðskiptakjör og birtir niðurstöður, eftir því sem ástæða þykir til. Samkeppnisráð skal setja Samkeppnisstofnun verklagsreglur um öflun slíkra upplýsinga, meðferð þeirra og birtingu.``
    Og í 1. gr. þessara sömu laga, hv. þm., stendur að viðskrh. fari með þessi mál. Þetta mál er auðvitað í höndum Alþfl. og ef Alþfl. hefur einhvern áhuga á að sinna því er einfaldast fyrir hv. þm. Gunnlaug Stefánsson að biðja hæstv. viðskrh. að hringja í Samkeppnisstofnun eða senda henni bréf og biðja hana um þessar upplýsingar og reyndar ber stofnuninni að hafa þær á reiðum höndum lögum samkvæmt. Það er því ekki þess vegna sem þarf að fara að samþykkja þáltill. að ekki liggi fyrir hver á að sjá um verkið og að þessar upplýsingar eiga að vera aðgengilegar. Það sem ég tel sérstaklega gallað við tillöguna er að hún er allt of þröng. Það sem þarf að gera ef menn vilja virkilega ná utan um málið er að taka lífskjörin í víðasta samhengi og bera þau saman. Þá má ekki orða þetta svona, hv. þm., að það þurfi að gera úttekt á vöruverði lífsnauðsynja vegna þess að með því að binda þetta við vöruna eina vantar mjög margt inn í myndina. En ef menn taka lífskjörin í víðasta samhengi koma þættir inn í eins og mismunandi aðgengi að opinberri þjónustu, miklu meiri kostnaður landsbyggðarinnar við að koma börnum til náms, fargjöld, flutningskostnaður, orkuverð og annað því um líkt. Ég hef því miður ekki skilið tillöguna svo að ætlunin sé að gera þarna samanburð á lífskjörum eftir byggðarlögum í víðasta skilningi.
    Svo er það líka að með málafylgju af þessu tagi fær maður ekki á tilfinninguna að sé ætlunin að neitt sérstakt gerist í framhaldinu eða samtímis og ég fullyrði að það sem vantar til að taka á þessum aðstöðumun eru ekki upplýsingar. Miklu meira en nóg liggur fyrir um það að það hallar á landsbyggðina í fjölmörgum atriðum af þessu tagi, ekki bara varðandi vöruverð í smásöluverslun og daglegum lífsnauðsynjum í búðum, heldur gagnvart fjölmörgum öðrum þáttum. Með því er ég ekki að gera lítið úr vanda hinnar eiginlegu strjálbýlisverslunar og þeirra aðstæðna sem þar er við að glíma og halda sannanlega uppi miklu hærra vöruverði en er hér þar sem hagstæðast gerist. Sé hins vegar þannig ástatt í versluninni á landsbyggðinni að sökum skorts á samkeppni sé þar haldið uppi ósanngjarnri álagningu þá fellur það undir samkeppnislög. Sé þannig ástatt eins og rökstuddar upplýsingar hafa komið fram um á síðustu mánuðum að nokkrir stærstu aðilar í smásöluverslun í landinu þrýsti niður verði í krafti yfirburðastöðu sinnar að birgjar þeirra verði síðan að bæta sér það upp með hærra verði til annarra fellur það líka undir samkeppnislög. Þá er verið að misbeita markaðsráðandi aðstöðu með þeim hætti að Samkeppnisstofnun ber að grípa þar inn í. Á alla enda og kanta er þetta því mál sem varðar samkeppnislöggjöfina í landinu ef um eitthvað það er að ræða að það varði við ákvæði þeirra laga.
    Ég verð hins vegar að játa að ég hef af því nokkrar áhyggjur að Samkeppnisstofnun og samkeppnisráð séu of upptekin við það sem ég leyfi mér að kalla, hæstv. forseti, með þínu leyfi, tittlingaskít en horfi fram hjá stóru málunum sem hér er um að ræða eins og aðstöðumun verslunarinnar og öðru slíku og hlutum eins og hér hafa verið að koma fram, ásökunum um að markaðsráðandi aðilar misbeiti aðstöðu sinni og það verði enn til þess að auka aðstöðumuninn og verðmuninn sem þarna er við að eiga.
    Að vísu er vel þekkt að vandi hinnar eiginlegu strjálbýlisverslunar er auðvitað ærinn og það verður seint hægt að tryggja tiltölulega jafnt vöruverð um allt land án tillits til aðstæðna nema stjórnvöld séu tilbúin til að grípa til jákvæðra aðgerða í því skyni að jafna aðstöðumuninn. Það er víða gert í nágrannalöndunum þar sem strjálbýlisverslunin nýtur t.d. hagstæðari starfsskilyrða. Skattar eru felldir niður af henni. Hún fær jafnvel flutningsstyrki og annað því um líkt. Eru menn tilbúnir til að fara út í slíkt hér? Það fer þá eftir því hversu miklir jafnaðarmenn menn eru en hver eru þau tvö ráðuneyti sem aðallega hefðu átt að sinna þessum málum undanfarin sjö ár? Það eru viðskrn. og félmrn. því jöfnun lífskjara og lífskjörin almennt heyra þar undir. Og hvað hafa þau gert? Ekki neitt. Og flutningur af tillögu á þessu tagi á síðustu dögum kjörtímabilsins er mönnum ósköp lítil friðþæging. Að mínu mati ættu menn heldur að reyna að knýja fram einhverjar aðgerðir og margt er auðvitað hægt að gera ef menn hafa kjark í sér til þess. Þegar ég tók við samgrn. var langlínutaxtinn áttfaldur taxti innanbæjarsímtala en tveimur árum seinna var þessi munur kominn ofan í það að vera þrefaldur með því ósköp einfaldlega að gefa út reglugerðir um að jafna þennan mun. Margt af þessu tagi væri hægt að gera, t.d. í orkuverðinu. Hefur ekki Alþfl. farið með þau mál í sjö ár? Og hvað hefur skeð? Það hefur aldeilis jafnast. Eina framlagið í þeim efnum er að leggja virðisaukaskatt á húshitun. Það er nú afrek Alþfl. í orkujöfnun á þessu kjörtímabili.