Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:37:59 (2124)

[13:37]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Þessi umræða hefur farið nokkuð víða og nú gerðist það að seinni flm. mætti á svæðið og hafði greinilega ekki hlustað á framsögu eða ræðu þess fyrri þannig að það gætir verulegs ósamræmis í málflutningi milli flutningsmannanna. Það er kannski ekkert undarlegt og verður að segjast alveg eins og er að þetta eru mikil hraustmenni að fara með þessa umræðu af stað styðjandi ríkisstjórn þar sem Alþfl. fer með viðskrn. og hefur gert í sjö ár. Maður getur gert sér í hugarlund þvílík barátta er búin að fara fram inn í þingflokki Alþfl. þar sem þessir tveir ágætu þingmenn hljóta að hafa barist til síðasta manns til að reyna að fá ráðherra sína til að taka eitthvað á þessu máli. Þeir hafa greinilega gefist upp þar og eru komnir með málið inn í þingsali.
    Hv. þm. Gísli S. Einarsson sagði að hann undraðist hvar þeir landsbyggðarþingmenn, sem ekki skildu og styddu inntak þessarar tillögu, hefðu verið, þeir væru ekki í tengslum við sína heimabyggð. Þeir gætu ekki hafa búið þar. ( GunnS: Þetta er hárrétt hjá honum.) Þetta er ekki rétt, virðulegur þingmaður. Ég get sagt fyrir mína parta að ég hef verið að því, ég hef unnið að því hörðum höndum síðasta áratug að lækka vöruverð í minni heimabyggð. Ég hef haft til þess tækifæri og náð árangri. Þannig að ég frábið mér svona tal. Ég hins vegar sagði í minni fyrri ræðu ef hv. þm. hefði hlustað að við yrðum að einangra vandamálið. Það er ekki af hinu góða að standa hér í ræðustól á Alþingi og lýsa því yfir að það sé almennt þannig að vöruverð á landsbyggðinni sé hærra en á höfuðborgarsvæðinu því það er ekki rétt. Víða út um land hafa menn náð árangri og víða eru menn enn að vinna að því hörðum höndum að ná þeim árangri.
    Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að það eru afmörkuð byggðarlög þó nokkuð mörg sem hafa ekki baklandið til að ná þeim árangri. Það ber að leita leiða til aðstoðar við þau. Ég hef lýst því hér yfir að ég væri tilbúinn til að taka þátt í þeirri vinnu.
    Ég hlýt að spyrja hv. þm. Gísla S. Einarsson hvernig hann ætli með stjórnvaldsaðgerðum að koma í veg fyrir þann verðmun sem hann nefndi að tímabundið kann að hafa verið uppi á tómötum í Reykjavík og á Akranesi. Ég bara spyr hv. þm.: Hvernig ætlar hann með stjórnvaldsaðgerðum að koma í veg fyrir það? ( GE: Með lágmarksverði.) Með lágmarksverði segir hv. þm. Mundi það lækka vöruverðið á Akranesi. ( GE: Og hámarksverðið.) Og hámarksverðið, segir þingmaðurinn aftur. Þingmaðurinn er sem sagt að segja að hann vill lögbinda sama verð á öllum vörum um allt land. Það er það sem hv. þm. eru að gæla við með því verðlagseftirliti sem því fylgdi. Mundi það tryggja lægra vöruverð á landsbyggðinni? Ég segi hiklaust nei. Þannig að hv. þm. eru þarna greinilega á villigötum. Það er engin önnur leið til en að láta markaðinn njóta þess að það sé samkeppni sem stýrir vöruverðinu. Það eiga því betur stórir hlutar landsbyggðarinnar möguleika í gegnum þá leið. Síðan verðum við að einangra vandamálið og taka á því sérstaklega. Þetta er eina leiðin sem er til. Það verður að vera liður í almennum byggðaaðgerðum sem taka á fleiri þáttum. Í slíkri vinnu er tillaga sem þessi algerlega ónýtt gagn. Hún fjallar um þætti sem við höfum aðgang að. Við höfum allar upplýsingar um mismunandi vöruverð. Við vitum líka hvers vegna vöruverð er hærra á einstökum fámennum svæðum þannig að við þurfum ekki að komast að því. Það sem þarf þá að gera er að taka á málinu með samræmdum aðgerðum.
    Ég geri mér alveg grein fyrir hvert vöruverð er á Raufarhöfn, Þórshöfn, Kópaskeri. ( GE: Veistu hvað það er lágt?) Ég veit alveg hver er mismunur þar og annars staðar. ( GÁS: Eitt það lægsta á landinu, er það ekki?) Ég geri mér grein fyrir því að hluti af vandamálinu er sá að með bættum samgöngum þá sækja menn að hluta til með sína verslun á stærri svæði sem bjóða upp á lægra vöruverð. Þannig að þetta er ákveðinn vítahringur. Vilja hv. þm. eins og mér skildist á hv. þm. Gísla S. Einarsyni þegar rætt var um fiskflutninga í fyrra að það yrðu settar vegatálmanir á Holtavörðuheiði til að menn færu ekki í þá

ósvinnu að flytja fisk þar yfir? Vill hv. þm. að það verði settar upp tollstöðvar og fólki verði bannað að sækja lengra í verslun til að halda uppi veltunni í heimabyggðinni? ( Gripið fram í: Þetta er athyglisverð tillaga. Við ættum að nota þetta í . . .  ) ( GunnS: Er þetta tillaga hv. þm.?) Þetta er ekki tillaga hv. þm. en málflutningur flm. gæti bent til þess að menn væru að leita einhverra slíkra leiða. ( IBA: Ætti að hætta við Hvalfjarðargöngin?) Hér er sagt hvort ætti að hætta við Hvalfjarðargöngin af hættu við að það mundi hækka vöruverð á Akranesi vegna þess að menn leituðu meira í verslun hingað. Þetta er því ekki eins einfalt mál og hv. þm. segja. Að það sé hægt að draga einhverja línu utan um höfuðborgarsvæðið og bera síðan saman vöruverð þar gegn vöruverð einhvers staðar annars staðar á landinu og þetta eigi helst að leysa með einhvers konar stjórnvaldsaðgerðum sem gerði það að verkum að vöruverð á landinu verði alls staðar eins. Ef við lesum tillögugreinina og allt sem henni fylgir þá er ekkert annað hægt að lesa út úr þessu.
    Við eigum að taka á þessu vandamáli, við eigum að taka á því þar sem það er virkilegt. Á öðrum svæðum eigum við að gera þá kröfu til verslunarinnar að hún leysi þetta sjálf. Dæmin sýna að það er hægt að gera það mjög víða.