Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:45:53 (2125)


[13:45]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson sagði að þessi tillaga væri ónýtt gagn. Hann vill fremur búa við það ástand er ríkir á landsbyggðinni mjög víðast hvað varðar hátt vöruverð á lífsnauðsynjum en að vinna að málinu á grundvelli þessarar tillögu. Tillagan felur ekkert annað í sér en að fram fari nákvæm úttekt á þessum málum, ástæður kannaðar fyrir háu vöruverði, og að gripið verði til ráðstafana í framhaldi af þeirri úttekt. Með öðrum orðum hefur hv. þm. Jóhannes Geir Sigurgeirsson ekki flutt í þinginu nokkra tillögu er miðar að því að lækka vöruverð á landsbyggðinni þar sem það er hæst. Ekki nokkra tillögu. ( SvG: Hann er bara á móti því.) Já, það er jafnvel nærri því rétt hjá hv. frammíkallanda, hv. þm. Svavari Gestssyni, að hann er á móti því vegna þess að hann telur, og það hefur komið greinilega fram í ræðum hans fyrr, að þetta sé svo léttvægt vandamál af því að það væri að finna á svo fáum stöðum á landsbyggðinni sem vöruverðið væri hátt og það mætti leysa með sértækum aðgerðum. Þetta er mjög merkileg yfirlýsing hjá hv. þm. Jóhannesi Geir Sigurgeirssyni og hann talaði í nafni Framsfl. Minnumst þess að hann talar í nafni Framsfl. Hér hafa orðið þáttaskil svo sannarlega. Hér hafa sannarlega orðið þáttaskil nema hv. þm. sé að tala fyrir eigin munn. Það er svo önnur saga.
    Hæstv. forseti. Nú er það orðið vandamál líka hjá hv. þm. að bættar samgöngur kynnu að gera lífskjörin erfiðari fyrir fólk af því að það þarf að fara lengri leið til þess að kaupa vörurnar þar sem þær eru á lægsta verði. Þetta er alveg hárrétt. Fólk fer langan veg til þess að kaupa vörurnar þar sem þær eru á lægsta verði en á meðan líður verslunin í heimabyggð.