Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 13:55:25 (2129)


[13:55]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Þetta hafa verið fróðlegar umræður. Mér finnst full ástæða til að ræða tillöguna vel. Ég endurtek það sem ég sagði í minni fyrri ræðu að ég hef síður en svo á móti því að sú athugun sem talað er um í tillögunni fari fram þannig að það fari ekki á milli mála. Mér finnst aftur á móti athyglisvert að hv. þm. sem flytja tillöguna hafa, að því er ég hef tekið eftir, einungis bent á tvær leiðir til þess að lækka vöruverð í dreifbýlinu. Önnur leiðin var sú að fella niður virðisaukaskatt á flutninga og mig langar til að spyrja hv. fyrri flm. þessarar tillögu hvort það eigi þá ekki við um flutninga á sjó og hvar menn ætli þá að draga línuna um flutninga. Ef taka á virðisaukaskattinn af flutningum almennt út á land hvernig ætla menn að draga línuna um það hvaða starfsemi á að vera undanþegin og hver ekki? Ég vil í þessu sambandi minna á að hæstv. ríkisstjórn lagði fram frv. á sínum tíma á kjörtímabilinu þar sem var sett á sérstakt hafnargjald. Það hafnargjald fór upp í það að vera lagt kannski þrisvar fjórum sinnum á sömu vöruna og það er enn þannig að þetta hafnargjald hækkar vöruverð á landsbyggðinni fram yfir vöruverð á höfuðborgarsvæðinu. Hvar voru flm. þessarar tillögu þegar verið var að koma því gjaldi á með þeim hætti sem þá var gert og kostaði mikil átök að breyta því þannig að það væri ekki lagt oft ofan á sömu vöruna?
    Hin hugmyndin kom nánast fram í frammíköllum hv. þm. Gísla Einarssyni en hann sagði það greinilega og skýrt að hann vildi setja bæði hámarksverð og lágmarksverð. Úr því að tillögumenn eru með þessar tvær hugmyndir spyr ég: Hafa þeir spurt formann flokksins að því hvort hann sé sammála þessum hugmyndum? ( JGS: Samræmist þetta EES?) Hvort þetta samræmist hugmyndum Alþfl. um frjálsa verslun og frjáls viðskipti og hvort þetta passar inn í EES og alla hugmyndafræðina sem Alþfl. hefur verið að reyna að berja inn í höfuðið á landsmönnum á undanförnum árum ef menn ætla að fara að lögbinda verð á vörum og þjónustu jafnvel úti um landið, því ég geri ráð fyrir því að tillagan sé hugsuð líka í sambandi við þá þjónustu sem tengist oft vörusölu.
    Ég get ekki séð að þessi tillaga út af fyrir sig bjargi þessum málum. Þarna eru á ferðinni stjórnarþingmenn sem koma inn á sviðið í þeim tilgangi að vekja athygli á þessu máli og það er góðra gjalda vert út af fyrir sig, en mér finnst nánast eins og að þeir séu að tala svolítið eins og Jóhanna Sigurðardóttir þegar hún stökk úr ríkisstjórninni, eins og menn séu búnir að gleyma öllu sem þeir hafa tekið þátt

í sjálfir og bera ábyrgð á. Alþfl. ber sérstaka ábyrgð á einmitt þessum málum. Þeir hafa haft viðskrh. í sjö ár sem hafa verið að fást við þessi atriði en ekki hefur verið hægt að sjá að neinar tilraunir væru gerðar til þess að lækka vöruverð á landsbyggðinni. Þó hafa Alþfl. og ríkisstjórnin lýst því yfir að það eigi að lækka hitunarkostnað um landið. Hvernig hefur það gengið? Hitunarkostnaður á landsbyggðinni núna er álíka mikill og í upphafi kjörtímabilsins. Eina breytingin sem er eitthvað sem heitir er samanburður milli hitunarkostnaðar í dreifbýlinu og á höfuðborgarsvæðinu. En hvers vegna? Vegna þess að það er búið að hækka húshitunarkostnað á höfuðborgarsvæðinu en ekki vegna þess að það sé búið að lækka hann úti á landsbyggðinni. Það er reginmunur á. Ef það huggar einhverja að Reykvíkingar borgi meira í hitaveituna sína en áður þá getur það út af fyrir sig þjónað tilgangi. En það huggar mig ekki neitt vegna þess að það hefur engin lækkun orðið á húshitunarkostnaði úti um landið.
    Eins er það með lækkun símakostnaðar. Það hefur engin breyting orðið síðan þessi ríkisstjórn tók við. Það varð veruleg breyting hjá þeirri hæstv. ríkisstjórn sem á undan var og þar voru menn að ganga í rétta átt en það er ekki búið að jafna símakostnaðinn í kringum landið. Það hefur verið rökstutt og það hefur komið víða fram að það sé vel hægt og Póstur og sími geti vel selt sína þjónustu allt í kringum landið á svipuðu verði. Þess vegna segi ég að mér finnst svolítið holt undir þegar þingmenn úr stjórnarflokkum sem hafa haft alla þessa aðstöðu sem þeir hafa búið við í bráðum fjögur ár til að koma þessum málum frá að þeir skuli koma með tillögu um það að jafna vöruverð á landsbyggðinni en hafandi ekki getað tekið á þeim þáttum sem sannarlega er hægt að taka á frá hendi ríkisins í sambandi við orkuverð og símakostnað til dæmis. En ég ætla samt og vil taka það sérstaklega fram vegna þess að mér finnst umræðan í sjálfu sér kannski vera farin að ganga dálítið þannig að menn séu að tala eins og að þetta sé af hinu vonda sem menn eru að færa fram í þessari tillögu. Það er ekki þannig og ég tel að út af fyrir sig geti verið ágætt að taka saman þessi atriði sem þarna er verið að tala um. En menn verða auðvitað að þola það að fá að heyra álit stjórnarandstöðunnar á því hvernig menn hafa staðið sig í ríkisstjórninni þegar þeir koma með mál að loknu kjörtímabili sem þeim hefur lítið gengið að sinna á undanförnum árum.