Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:06:21 (2132)


[14:06]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ef við ættum ekki við þann vanda að etja sem felst í offjárfestingum í orkumálum þjóðarinnar á mörgum undanförnum árum sem Alþb. hafði m.a. forustu um á sínum tíma og ber mikla ábyrgð á, ef við bærum ekki þessa bagga á baki þeirra stofnana er við koma þá hefðu þeir fjármunir sem við höfum varið til aukinna niðurgreiðslna á síðustu þremur árum komið af langtum meiri þunga til fólksins á köldu svæðunum. Vandinn er sá að því miður fer allt of stór hluti af niðurgreiðslunum á raforkunni á köldu svæðunum í það að greiða niður offjárfestinguna, herkostnaðinn við offjárfestinguna í orkumálunum á undanförnum árum af því að við sitjum uppi með umframorku sem enginn vill kaupa. Þetta er vandamál. Þess vegna hafa niðurgreiðslurnar stórlega aukist en því miður fer allt of stór hluti af þessari aukningu í það að greiða niður þessa fjárfestingu. Hv. þm. á því að líta í eigin barm og horfa til fortíðar þegar hann horfir á þessi mál í samhengi. Þetta er mjög alvarleg niðurstaða. Auðvitað hefur Alþfl. gripið til margs konar aðgerða eða haft forustu um þær í þessari ríkisstjórn til lækkunar á vöruverði í landinu öllu. Það má nefna eins og hv. þm. benti á sjálfur, lækkun á virðisaukaskatti og skattalækkanir sem hafa orðið almennt í atvinnurekstri, afnám aðstöðugjalds og svo fjölmargar aðrar aðgerðir sem felast í samningum við erlendar þjóðir.