Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:08:29 (2133)


[14:08]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé full ástæða til þess að menn rifji upp söguna svolítið betur í sambandi við það hverjir bera ábyrgð á því hvenær farið var í framkvæmdir Blönduvirkjunar sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi verið að nefna hér því það var tillaga Alþb. þegar stóð til að hefja þær framkvæmdir að fresta þeim. Það er fyrst og fremst Blönduvirkjun sem við erum núna að bíta úr nálinni með í sambandi við orkuverð. En auðvitað er þetta allt rétt sem hv. þm. er að segja um það að við erum að greiða þennan reikning, þ.e. offjárfestinguna í orkumannvirkjunum. En það er sama, ég tel að hæstv. ríkisstjórn hafi lofað fólkinu í landinu því að lækka orkuverðið til heimilanna og það dugar ekki að koma og halda því fram núna að það hafi ekki verið hægt vegna þess að menn hafi verið búnir að byggja Blönduvirkjun. Það vissu væntanlega þeir sem settust að ríkisstjórnarborðinu að það væri búið að byggja Blönduvirkjun. ( GunnS: Það hefur lækkað, en ekki nóg.) Það hefur lækkað það lítið að hv. þm. ætti nú bara að kynna sér það svolítið nánar og það þýðir lítið fyrir hann að mæta á heimilunum um landið og hæla sér af því að hann hafi lækkað orkuverð til heimilanna.