Vöruverð lífsnauðsynja og verðmunur á milli þéttbýlis og dreifbýlis

46. fundur
Miðvikudaginn 30. nóvember 1994, kl. 14:32:08 (2138)


[14:32]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) (andsvar) :

    Hæstv. forseti. Burt séð frá pólitískum flokkajöfnuði sem náttúrlega mun aldrei taka enda þá held ég eigi að síður að þær umræður sem hér hafa farið fram um vöruverð lífsnauðsynja á landsbyggðinni og þennan verðmun sem ríkir á milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar hafi verið afar gagnlegar, það er hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon alltaf að sannfæra mig betur um. Vegna þess að ef hann tekur sig nú til þegar þessari umræðu lýkur og les tillöguna, sem ég held að hann hafi því miður ekki gefið sér tíma til í hita umræðunnar að gera og kynna sér, þá kemst hann að raun um að það sem hann taldi hér í síðustu ræðu sinni mikilvægast af öllu, að kanna hvaða ástæður valda þessum verðmun, þá er þetta einmitt innihaldið í þeirri till. til þál. sem hér liggur fyrir. Það sendur orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: Kannað verði sérstaklega hvaða ástæður valda slíkum verðmun. Þetta er kjarni málsins. Þetta er einmitt kjarni málsins. Það fer vel á því í lok þessarar umræðu að hér náum við saman hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon. Vegna þess að ég veit að hann hefur mikinn áhuga á því að lífskjörin á landsbyggðinni megi eflast og styrkjast. Og hann vill leggja þar allt sitt af mörkum svo það megi ná fram að ganga. Held ég að hér sé komin hin sameiginlega niðurstaða þessara umræðna að þetta verði kannað. En til þess að það verði gert og úttektin fari fram og könnunin leiði til hugsanlega raunhæfra aðgerða þá þarf að samþykkja þessa till. til þál. Um það eigum við að sameinast. Það liggur ekki önnur tillaga fyrir þinginu en þessi.