Menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:11:54 (2148)


[11:11]
     Flm. (Árni R. Árnason) :

    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um eflingu menntunar í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar. Hún er flutt af níu hv. þingmönnum og í tillögugreininni segir svo:
    ,,Alþingi ályktar að fela menntmrh. að efla menntun í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar með stofnun námsbrauta og þróun námsefnis er njóti forgangs við framkvæmd nýrrar menntastefnu.``
    Virðulegi forseti. Til umfjöllunar hafa verið í þinginu og nú í hv. menntmn. frv. til laga um grunnskóla og framhaldsskóla. Í þeim frv. koma fram ákvæði til að framfylgja nýrri stefnu í menntamálum sem menntmrh. hefur gert grein fyrir og birst hefur í skýrslu frá nefnd er samdi bæði frv. Þeir sem flytja þessa tillögu taka undir ýmis sjónarmið sem komið hafa fram í starfi nefndarinnar og skýrslu hennar og birtast í frv. M.a. að leggja grundvöll að nýjum starfsháttum og áherslum í skólastarfi með ákvæðum um framkvæmd þess eftir markmiðum menntunar, aukin tengsl skóla og atvinnulífs og eflingu starfsnáms og verkmenntunar. Efling verkmenntunar hefur lengi verið orðuð, virðulegi forseti, þegar við ræðum menntamál, en því miður hefur okkur ekki enn þá vel tekist. En með nýjum áherslum og starfsháttum í framhaldsskólum hljóta okkur að skapast færi á að auka veg og virðingu þekkingar og þjálfunar til starfa við nýtingu auðlinda okkar í hafinu. Til þess þarf menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar að njóta sérstaks forgangs í þeirri endurmótun námsframboðs og skólastarfs sem hafin verður með fyrrnefndri löggjöf um framhaldsskóla og hrint í framkvæmd á grundvelli hennar.
    Námið þarf að hljóta sess sem hæfir mikilvægi þessara starfsgreina með hæfnisprófi að loknu tilteknu námsefni, tilteknum áföngum og að námi loknu með réttindum til starfs og til framhaldsnáms. Almennir náms- og þjálfunaráfangar þurfa að búa nemendur undir almenn störf og framhaldsáfangar þurfa að veita þeim kunnáttu til nokkurrar ábyrgðar og flóknari starfa, svo sem við stjórn framleiðsluvéla og tækja, en fullt nám og starfsþjálfun veiti réttindi til framleiðslueftirlits, til verkstjórnar og annarra ámóta ábyrgðarstarfa. Lokapróf þarf að veita meistararéttindi og samfelldar námsleiðir þurfa að liggja allt til stúdentsprófs og til aðgangs að háskólanámi.
    Virðulegi forseti. Lengi vel, frá 1986 og allt fram á þetta ár hefur afkoma okkar þjóðarbús farið versnandi og lífskjörin rýrnað. Í efnahagslífi okkar hefur ríkt stöðnun og samdráttur, einkum í sjávarútvegi. Tvær helstu orsakir þessa eru verðlækkun afurða á mörkuðum okkar helstu viðskiptalanda vegna versnandi efnahagsástands og versnandi afraksturs þorskstofnsins á Íslandsmiðum sem er okkar helsti og verðmætasti nytjastofn. Við þessar aðstæður hefur athygli okkar beinst að því hvernig við getum bætt hag okkar við ríkjandi ytri aðstæður, t.d. með aukinni hagkvæmni, og víða í sjávarútvegi hafa verið gerð stór átök til hagræðingar á síðustu árum. Ekki síst hafa augu okkar opnast fyrir aukinni og bættri nýtingu auðlindarinnar með veiðum og nýtingu áður ónýttra tegunda og með aukinni vinnslu sjávarfangs og fullvinnslu, allt til framleiðslu tilbúinna rétta. Þrátt fyrir þetta erum við enn að stærstum hluta útflytjendur hráefnis og flest fiskvinnslufyrirtæki okkar stunda í raun aðeins frumvinnslu, þ.e. verkun hráefnis í geymsluhæft ástand. Fullvinnslan fer enn að stærstum hluta fram erlendis. Atvinnan er flutt út.
    Fiskiðnaður fullvinnur hráefni bæði ferskt og úr geymsluhæfu ástandi, ísfisk, heilfrystan fisk, frystar flaka- og marningsblokkir, blautverkaðan og þurrkaðan saltfisk, saltsíld og hrogn frá hvers konar veiðiskipum, vinnsluskipum og verkunarstöðvum í landi. Afurðir fiskiðnaðar eru tilbúnar til neyslu allt frá verslunarvörum fyrir matseld til tilbúinna rétta sem bregða má í ofn og beint á borð.
    Við höfum mikla reynslu af fiskvinnslu og því staðgóða grunnþekkingu á matvælaframleiðslu. Á síðustu áratugum hefur fleygt fram kunnáttu okkar sem nær lengra en til að gera hráefni geymsluhæft. Þó enn séum við framleiðendur hráefna höfum við nú mikla þekkingu á mörkuðum, kröfum og neysluvenjum neytenda sem nýtist okkur við matvælaiðnað og framleiðslu tilbúinna rétta. Við höfum grunninn til að byggja á iðnvæðingu í sjávarútvegi, en almenn menntun í fiskiðnaði og matvælaiðnaði mun leiða til iðnvæðingar við sjávarsíðuna, til útflutnings fullunninna afurða og meiri verðmætasköpunar.
    Virðulegi forseti. Flest okkar hafa unnið við fiskveiðar eða fiskvinnslu og við skynjum því vel hve mikilvægt er að sjávarafli verði vel nýttur og sköpuð sem mest verðmæti úr honum. Nú horfir hins vegar til þess sökum minnkandi atvinnu að ungt fólk alist upp án þess nokkru sinni að komast í beina snertingu við sjósókn eða fiskvinnslu. Af er sem áður var. Nú gætir þess að störf við sjávarútveg fái einungis þeir sem hafa nokkra þjálfun og kemur þá að hlutverki skólanna. Af þessum ástæðum er mikilvægt að uppvaxandi æskufólki bjóðist í námi kynni af atvinnugreinum og störfum, ekki síst nám- og verkþjálfun til undirbúnings fyrir störf eða starfsemi við okkar stærsta atvinnuveg. Fram til þessa höfum við að mestu treyst á samskipti fjölskyldna beint við atvinnufyrirtækin til þess að unga fólkið fái þessi kynni. En sem ég sagði fyrr bjóðast þeim nú sífellt færri tækifæri til þess að kynnast atvinnu við sjávarútveg, við veiðar og vinnslu.
    Ef við bjóðum þetta fram í skólum þá mun styrkjast ímynd sjávarútvegs okkar og annarra starfsgreina sem honum tengjast með þjónustu og öðrum viðskiptum við hann. Það mun treysta í sessi þann skilning okkar almennt að fiskveiðar, fiskiðnaður og framleiðsla matvæla og tilbúinna neyslurétta úr sjávarfangi er atvinnuvegur sem beitir nýjustu aðferðum og tækni, viðhefur ströngustu kröfur um hreinlæti og gæði, framleiðir einungis fyrsta flokks vörur fyrir kröfuharða kaupendur.
    Því miður, virðulegi forseti, er ég ekki viss um að uppvaxandi almenningur fái þessa ímynd þegar hann ekki hefur bein kynni af sjávarútvegsfyrirtækjum og fær takmarkaðar upplýsingar um sjávarútvegsgreinina í skólastarfi. En gott nám til undirbúnings lífsstarfi við sjávarútveg, við sjósókn og fiskveiðar, fiskvinnslu og fiskiðnað, við framleiðslu fullgerðra matvæla og tilbúinna rétta úr sjávarfangi er okkur nauðsyn því að þar liggur okkar höfuðauðlind. Námsefni þarf að vera fjölbreytt til að þjóna margvíslegum þörfum nemenda og atvinnuvegar sem er mjög margbrotinn. Góð og raunhæf menntun er undirstaða framfara og vel launaðra starfa við arðbær atvinnufyrirtæki sem eru undirstaða velmegunar og góðra lífskjara.
    Virðulegi forseti. Við leggjum til að við framkvæmd nýrrar menntastefnu verði leitað sérstakra ráða í skólastarfi til að nýta sem best okkar stærstu og bestu auðlind, til að virkja uppvaxandi fólk til starfa í þeirri atvinnugrein sem hefur reynst okkur öflugust og þróttmest.
    Að umræðu lokinni legg ég til að tillöguni verði vísað til síðari umr. og til umfjöllunar í hv. menntmn.