Menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:26:46 (2151)


[11:26]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegi forseti. Mér finnst það ekki skrýtið þó að hæstv. menntmrh. óski eftir því að taka þátt í þessari umræðu. Þrátt fyrir að hér sé á ferðinni gagnmerk till. til þál. um eflingu menntunar í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar þá má um leið segja að þessi þáltill. sé a.m.k. viðvörun ef ekki árás á hæstv. menntmrh. sem hefur lagt fram á Alþingi frv. til laga um framhaldsskóla. Þar er gert ráð fyrir mjög miklum breytingum sem búið er að mæla fyrir reyndar og er komið til hv. menntmn.
    Ég ætla ekki að gera lítið úr þessari þál., síður en svo, því að ég tek undir það sem hér kemur fram í greinargerð að það er mjög mikilvægt að efla menntun á sviði sjávarútvegs. En vegna þeirrar endurskoðunar sem átt hefur sér stað á framhaldsskólalöggjöfinni og þeirri vinnu sem verið hefur í gangi á vegum sjútvrn. og menntmrn. þá höfum við, ég og hv. þm. Halldór Ásgrímsson, ekki lagt hér fram á þessu þingi till. til þál. um stofnun sjávarútvegsskóla sem við lögðum fram á 115., 116. og 117. löggjafarþinginu. Sú þáltill. gerir ráð fyrir sameiningu Fiskvinnsluskólans í Hafnarfirði, Stýrimannaskólans í Reykjavík og Vélskóla Íslands í einn sjávarútvegsskóla á framhaldsskólastigi sem er að mörgu leyti mjög svipuð þeirri hugmynd sem hér kemur fram í þáltill. þeirra sjálfstæðismanna.
    Það er mikilvægt að efla og styrkja menntun á sviði sjávarútvegs. Reynsla okkar sannar það að því meiri sem menntunin verður, sérstaklega fyrir það fólk sem er að vinna að verðmætasköpuninni í atvinnugreininni, eins og oft hefur verið kallað því fólki sem vinnur á gólfinu, þá hafa þau námskeið sem verið hafa í gangi á vegum sjútvrn. og aðila vinnumarkaðarins verið vel sótt og á því leikur enginn vafi að þau hafa skapað verulega framleiðniaukningu í atvinnugreininni og það eru auðvitað vísbendingar um að því meiri sem menntunin er og því meiri sem kennslan og leiðbeiningarnar eru, þeim mun meiri verður hagkvæmnin í atvinnugreininni og verðmætasköpunin. En mér finnst þrátt fyrir að hér sé um ágæta þáltill. að ræða, þá hefðu menn átt að doka örlítið við og a.m.k. af því að það eru þingmenn úr sama stjórnmálaflokki og hæstv. menntmrh. þá má segja að hæg hefðu verið heimatökin að ræða örlítið í þingflokki Sjálfstfl. hvort ekki væri hægt að koma þeim hugmyndum sem hér eru lagðar fram í formi þáltill. fyrir í því frv. um framhaldsskólann sem hæstv. menntmrh. hefur þegar mælt fyrir.
    Ég tel reyndar vissa hættu á því að ætlast til að öll menntun í sjávarútvegi fari fram innan framhaldsskólans. Ég tel að stóran hluta af þeirri menntun sé hægt að taka í framhaldsskólunum vítt og breitt um landið en ég er sannfærður um að það á að vera til sérskóli á sviði sjávarútvegs sem veitir sérhæfða menntun. Sá skóli á að starfa á framhaldsskólastigi því að þegar framhaldsskólastiginu sleppir erum við komin með mjög góða menntun á háskólastiginu. Mér hefur því miður fundist í umræðunni um menntunarþörf í sjávarútvegi að menn rugli þar saman menntun á háskólastigi og menntun á framhaldsskólastigi. Við getum bætt við menntunina á framhaldsskólastigi og opnað aðgang þeirra sem ljúka þar prófum að ákveðnum námsáföngum á háskólastigi. Það þarf ekki endilega að vera bein leið þangað inn á háskólastigið, menn geta tekið þetta í áföngum. Menn geta stoppað á ákveðnum stöðum og haldið síðan áfram síðar meir eða þegar mönnum hentar best. Aðalatriðið er að menn geti á öllum stigum fræðslunnar unnið sér inn ákveðin stig sem hægt er að geyma hvort sem menn kalla það að ljúka stúdentsprófi eða komast inn í háskólann og notað tímann til þess þannig að starfsmenntun gefi í raun og veru ákveðin tækifæri til þess að flýta fyrir sér í námi.
    Í þeirri þál., sem ég ætla að gera örlítið að umtalsefni vegna þess að hún er náskyld þeirri till. til

þál. sem ég og hv. þm. Halldór Ásgrímsson lögðum fyrir á þremur síðustu þingum og hæstv. menntmrh. taldi að mikilvægt væri að fá inn í umræðuna um þá endurskoðun sem er núna að eiga sér stað á námi í sjávarútvegsfræðum á framhaldsskólastigi, þá gerðum við ráð fyrir því að þessir þrír skólar yrðu sameinaðir, þ.e. Fiskvinnsluskólinn, Stýrimannaskólinn og Vélskóli Íslands. Staðreyndin er sú að um það bil 40% af námsefni skólanna er alveg sambærilegt. Menn læra sömu enskuna, sömu dönskuna, sömu stærðfræðina og þar fram eftir götunum. Staðreyndin er sú að menn þyrftu að fara dálítið einkennilega í námið ef menn eru ekki að læra það sama og þess vegna er óskynsamlegt að vera með hálftóma bekki. Svo ég taki sem dæmi Stýrimannaskólann í Reykjavík þar sem Stýrimannaskólinn og Vélskólinn eru til húsa þá er það svo að menn eru að læra sömu enskuna á 2. og 3. hæð en það er tvöfaldur kennslubúnaður. ( Gripið fram í: Þetta er gert í háskólum líka.) Það eru tveir kennarar. Í háskólanum, hv. þm., er þetta þannig vegna þess hvernig búið er að fara með háskólann í fjárveitingum hjá hinu háa Alþingi og hvernig ríkisstjórnin hefur farið með háskólann í fjárveitingum er svo troðið í bekki þar og á mörgum sviðum líka í framhaldsskólunum að menn telja að kennslan sé að verða annars flokks kennsla sem er auðvitað mjög alvarlegt. En þessu er öðruvísi farið í Stýrimannaskólanum og Vélskólanum vegna þess að aðsóknin að þeim skólum hefur verið að minnka á undanförnum árum og það er verið að kenna þar fyrir hálfum bekkjum og stundum hálftómum bekkjum. Þess vegna er eðlilegt að slá þessum skólum saman í einn skóla, þ.e. Fiskvinnsluskólanum, Stýrimannaskólanum og Vélskóla Íslands sem starfaði á ákveðnum sviðum innan framhaldsskólakerfisins þar sem gæti verið vélstjórnardeild, fiskvinnsludeild, skipstjórnardeild, fiskeldisdeild og endurmenntunardeild. Í þetta nám þyrftu ekki endilega allir strax að innritast í skólann. Stærstan hluta eða kannski 40% af náminu sem væri algerlega eins, alveg sama hvar námið væri stundað, væri hægt að stunda í hvaða framhaldsskóla í landinu sem væri. Til þess að sérhæfa sig á framhaldsskólasviðinu væri hægt að hefja nám í sjávarútvegsskólanum og fara þar inn á ákveðnar brautir.
    Ég sé, virðulegur forseti, að ég er búinn með tímann og biðst afsökunar á því að hafa farið fram yfir, en hefði í raun viljað segja miklu meira.