Menntun á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:37:22 (2152)



[11:37]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegur forseti. Að vísu hefði ég gjarnan kosið að menntmrh. hlýddi á mál mitt en þar sem ég veit ekki hversu langur frestur verður á að hann komi ætla ég að fá að segja nokkur orð núna.
    Það er alveg rétt sem hv. 11. þm. Reykv. sagði áðan að verið væri að kenna í hálftómum bekkjardeildum sama fagið og kennt er í skólanum við hiðina líka í hálftómum bekkjardeildum. Því má vel vera að rétt sé að stofna einn slíkan sjávarútvegsskóla eins og hann og félagar hans leggja til. Þannig er að þessi enska, íslenska og danska og hvað það er sem fólkið lærir í grunninum er það sama um land allt og er hægt að læra hvar sem er og væri sjálfsagt endurskoðunarefni hvort sú kennsla ætti ekki að vera annars staðar ef það hentaði. Ég er að hugsa um þetta vegna þess að ef einn slíkur skóli yrði settur upp eins og hv. 11. þm. Reykv. talaði um þá þyrfti fólk að koma langan veg til þess að taka þátt í náminu, langan veg frá heimilum sínum og búa á þeim stað sem skólinn væri fyrir dýra dóma, kannski miklu dýrara en það sem það þyrfti að greiða heima hjá sér og er því ekki víst að það væri sérlega hagkvæmt að hafa þetta á einum stað. En eigi að síður held ég að báðar tillögurnar gangi út á að efla viðgang og virðingu sjávarútvegsfræða hér á Íslandi.
    Um langa hríð hefur virðingin sem borin hefur verið fyrir sjávarútvegsfræðum og fiskiðnaði almennt verið harla lítil og eiginlega sorglega lítil. Þeir sem hafa kennt í skólum landsins um áratugi hafa eins og ég horft upp á það hvernig verkmenntunin hefur verið vanmetin, ekki bara sjávarútvegs- og fiskiðnaður, heldur hefur öll verkmenntun í skólakerfinu. Það þarf því miklu meira til og það er það sem ég hefði gjarnan viljað láta hæstv. menntmrh. heyra að til þess að breyta virðingunni og aðsókninni að sjávarútvegsfræðum og verkmenntun almennt þarf að breyta hugsun landsmanna. Það þarf að breyta því að landsmenn haldi að ef einhver vill læra verklega grein sé hann kjáni. Þannig hefur þetta verið og þannig var ýtt undir þetta á marga vegu þau sl. 30 ár sem ég hef þekkt til. Þetta hefur verið sorgleg þróun að horfa upp á.
    Fyrir 35 árum voru í landinu verkmenntadeildir í gagnfræðaskólunum og a.m.k. í þær deildir sem ég þekkti til þar sem var einmitt sjávarútvegsdeild, handmenntir og matvælaiðnaður komu ungmenni sem höfðu ákveðna stefnu og ætluðu sér vissan feril í lífinu. Það var oft kjarnafólk sem var stundum uppivöðslusamt í skóla en getumikið og alls engir kjánar. Margt af því fólki hefur getið sér góðan orðstír síðan. En þá voru til skólar sem beindu nemendum sínum, sem höfðu náð litlum árangri í neðstu bekkjum grunnskólans, hreinlega inn í verkmenntadeildina. Þeim fræðsluaðilum, sem þetta gerðu, var þetta til skammar vegna þess að þetta varð til þess að eyðileggja þessar deildir. Smátt og smátt breyttust deildirnar og urðu fámennari og í það kom ekki það kjarnafólk sem ég þekkti í upphafi. Það var vegna þess að foreldrar, kennarar og þjóðfélagið allt gaf þann tón að það væri lítils virði að fara í verkmenntir. Ef við ætlum að bæta verkmenntir á Íslandi í dag, það er alveg sama hvaða þáltill. kemur fram hér í þinginu, frá hvaða flokki og frá hvaða mönnum, ef við byrjum ekki á því að reyna að breyta viðhorfinu til verkmennta á Íslandi verður ekkert úr einu né neinu sem samþykkt er hér. Þetta vildi ég láta hv. þm. vita og hæstv. menntmrh. líka.