Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:52:15 (2154)


[11:52]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það má vissulega segja að það sé tímabært sem hv. frsm. þessarar tillögu gerir að koma með þessa till. til þál. um að gera úttekt á kjörum og stöðu fólks sem stundar nám fjarri heimabyggð.
    Það sem hann sagði áðan, um að barnafólk þyrfti oft og tíðum jafnvel að skipta um lögheimili til þess að eiga aðgang að leikskólum og segir í grg. að það sé mjög takmarkaður aðgangur slíks fólks, þar er í raun og veru ekki nógu fast að orði kveðið því aðgangurinn er ekki aðeins takmarkaður, honum er nánast neitað. Þetta á sérstaklega við á höfuðborgarsvæðinu því það eru mörg dæmi um það að fólk sem kemur hingað í nám, barnafólk, og sækir um á leikskólum borgarinnar geti komist að á leikskólum eftir 2--3 ár, þ.e. þegar nám þess er kannski meira en hálfnað eða því er að ljúka. ( KÁ: Þetta stendur til bóta.) Vonandi stendur það til bóta með nýjum meiri hluta í Reykjavík.
    En þannig hefur þetta verið undanfarin ár og þær breytingar sem gerðar voru á Lánasjóði ísl. námsmanna, m.a. í tíð þessarar ríkisstjórnar og hv. flm. stóð nú að þeim breytingum, þá hefur það ekki orðið til þess að bæta stöðu námsfólks þar sem það fær ekki námslán sín greidd, þ.e. ef námið er lánshæft þá fær það ekki lán sitt greitt fyrr en eftir á. Fólk þarf einnig að standa full skil á öllum þeim einingum sem lánasjóðurinn krefst til þess að fá lán.
    Það er dæmi um að fólk, og þá er ég sérstaklega að tala um barnafólk, geti ekki lokið öllum þeim einingum sem lánasjóðurinn kveður á um og þá er það jafnvel búið að taka lán til að standa undir öllum þessum breytingum á högum sínum í fjóra til sex mánuði og fær síðan þá úttekt frá lánasjóðnum að það fái enga fyrirgreiðslu. Þannig að vissulega þarf að skoða það hvernig lánasjóðurinn vinnur að því markmiði sínu að jafna aðstöðu fólks til náms.
    Það er nýlega búið að gera könnun á því hvaða fólk það er, þ.e. hvar það fólk á lögheimili sem nýtur lána frá Lánasjóði ísl. námsmanna og kom í ljós að það er ekki nema svona frá 2--3% í þeim kjördæmum sem eru lengst frá Reykjavík, t.d. Austfjörðum. Það fólk sem á þar lögheimili er ekki nema örfá prósent af lánþegum lánasjóðsins á móti því að það eru alla vega 50--60% úr Reykjavík og af suðvesturhorninu. Það fólk sem getur nánast stundað nám í framhaldsskólum frá sínu heimili.
    Það er því alveg ljóst að það er auðvitað miklum mun þægilegra að stunda nám fyrir þá sem búa hér heldur en hina sem þurfa að fara langt frá sínu heimili og flytja búferlum. Það er því verulega mikil þörf á því að það sé skoðað hvernig staða þess námsfólks er sem þarf að stunda nám fjarri heimabyggð og þarf að flytja sitt heimili, hvort sem það er lögheimili eða ekki. En það er einnig mjög slæmt að það skuli þá í mörgum tilfellum þurfa að flytja lögheimili því það skapar líka ýmislegt annað óhagræði eins og t.d. það að það getur þá þurft að skila skattframtali á þeim stað þar sem það hefur flutt lögheimili til og einnig þegar sveitarstjórnar- eða alþingiskosningar fara fram, ef þetta er fólk sem hefur atkvæðisrétt sem er í flestum tilfellum, þá þarf það einnig að kjósa þar sem það hefur sitt lögheimili þó að það hafi kannski minnstan áhuga á því að kjósa þar.
    Það er því mjög margt sem kemur inn í það að fólk skuli, til þess að geta fengið ýmis félagsleg réttindi, þurfa að flytja lögheimili sitt.
    Það kemur auðvitað inn í það að ef fólk flytur lögheimili, t.d. utan að landi þá fær það jafnframt ekki þann ferðastyrk sem það annars ætti rétt á að fá.
    Ég vildi benda á þetta, ég held að það sé mjög víða pottur brotinn í þessum málum og það þarf líka að taka verulega á fleira en því hvernig aðstæður eru vegna lánasjóðsins. Það er vissulega tímabært

að skoða það hvernig reglur lánasjóðurinn setur sér út frá þeim lögum sem í gildi eru því satt að segja hef ég líka efast um það að þær reglur séu alltaf byggðar á lögunum.