Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 11:58:27 (2155)


[11:58]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðu til þess að taka undir efni þessarar tillögu sem hér er flutt af þremur þm. Alþfl. og ég tel satt að segja mjög sérkennilegt að málum af þessu tagi skuli ekki hafa verið hreyft með kerfisbundnum hætti miklu fyrr. Reyndar hefur það verið svo að við alþýðubandalagsmenn höfum á undanförnum árum og má segja kannski lengur lagt mikla áherslu á þann fjárlagalið í þessu sambandi sem heitir jöfnun námskostnaðar og er undir menntmrn. og við tvöfölduðum á síðasta kjörtímabili í raunstærðum en er samt sem áður í rauninni mjög lágur og skilar allt of litlu miðað við þær þarfir sem uppi eru í þessu sambandi.
    Í öðru lagi má kannski geta þess að það var ákveðið að heimanakstur nemenda í framhaldsskólum yrði að nokkru leyti kostaður af þessum lið og á það við um nokkra framhaldsskóla, þ.e. Fjölbrautaskólann á Sauðárkróki og Framhaldsskóla Suðurlands a.m.k. og kannski aðra skóla án þess að ég kunni það lengur utan að.
    Staðreyndin er sú að við höfum haft eftir atvikum tiltölulega gott námsaðstoðarkerfi þó að það hafi spillst verulega í tíð núv. ríkisstjórnar að því er varðar Lánasjóð ísl. námsmanna, þá má segja að þetta kerfi hafi verið allgott. Þegar hins vegar hefur komið að því að taka sérstaklega á vanda fólks sem stundar nám fjarri heimabyggð þá hefur mjög lítið verið um það að menn legðu þar fjármuni til jöfnunar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna. Þá er ég í fyrsta lagi að tala um framhaldsskólana. Það er náttúrlega alveg augljóst mál að þegar um er að ræða, segjum t.d. tvö börn úr sömu fjölskyldunni eða tvo unglinga úr sömu fjölskyldunni sem vilja eða eiga að stunda framhaldsnám í skóla fjarri heimabyggð þá það gengur bara oft ekki vegna þess að það er svo dýrt. Ég minnist þess vafalaust lengi að á síðasta ári var ég svo heppinn að sækja fund á Ólafsfirði með hv. 4. þm. Norðurl. e. og þar sagði fullorðinn maður okkur frá því að hann hefði ekki ráðið við að koma börnum sínum til mennta af því að þau voru svo mörg þannig á vegi stödd að þau vildu gjarnan mennta sig. Hann réð ekkert við það. Ég held að það þurfi skilyrðislaust að taka á þessu máli, þ.e. þessum sérstaka vanda þess fólks sem býr fjarri framhaldsskólunum og heimavistarskólunum. En í öðru lagi --- nú er auðvitað mikilvægt að hv. flm. láti svo lítið að vera í salnum meðan maður er að tala í hans eigin máli --- eru það ekki bara framhaldsskólanemendur sem hér er um að ræða heldur líka grunnskólanemendur. Staðreyndin er sú að kostnaðurinn við skólahald grunnskólanema í dreifbýli er ótrúlegur. Það þekkjum við mörg úr okkar byggðarlögum að þar er um ótrúlegan kostnað að ræða og afar sérkennilegt hefur mér oft fundist, með fullri virðingu fyrir þeim, að þingmenn dreifbýlisins skuli ekki hafa verið frekari til fjörsins fyrir hönd þessara barna í heimavistum grunnskóla úti á landi og gert ákveðnari kröfur um það að samfélagið, ríki eða sveitarfélög, greiddi niður þennan kostnað með einhverjum hætti vegna þess að hann er oft og tíðum algjörlega óviðráðanlegur. Ég er að tala um skóla eins og við þekkjum öll til sem erum hér inni, t.d. Laugaskóla í Dölum, Klúkuskóla vestra eða hvað það nú er, að þarna er oft um að ræða kostnað sem er heimilunum afar þungur. Þess vegna tel ég, hæstv. forseti, að við meðferð á tillögu af þessu tagi þá eigi menn ekki að takmarka þetta við framhaldsskólann heldur eigi menn að tala um það þegar fólk stundar nám fjarri heimabyggð almennt, hvort sem það er framhaldsnám eða grunnskólamenntun og það eigi að taka saman yfirlit um þetta, um þennan kostnað í heimavistum grunnskólanna líka því þar er um að ræða býsna þungan bagga víða. Það er ekki hægt að tala um jafnrétti til menntunar í landinu meðan foreldrar þurfa að borga með börnum sínum fleiri tugi þúsunda eða jafnvel hundruð þúsunda þegar um er að ræða nám fjarri heimabyggð, sérstaklega framhaldsskólanám á svæðum þar sem mjög erfitt er að fá húsnæði og húsnæði er dýrt.
    Ég tel því að hér sé hreyft afar þörfu máli og það eigi að gera ráðstafanir til þess að könnun af þeim toga sem hér er um að ræða fari fram, það verði kortlagt, það verði skoðaður hver einasti skóli, hver einasta heimavist í öllu landinu og athugað hvað þarf að gera, hversu mikla fjármuni þarf að flytja til til þess að við náum því markmiði að það verði hægt að tala um jafnrétti til menntunar af þessum ástæðum líka.