Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 12:12:50 (2158)


[12:12]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á því að lýsa stuðningi mínum við þessa þáltill. en í þeirri von að henni verði breytt og hún gerð víðtækari því það er full ástæða til þess að skoða bæði þessa hluti sem þarna er verið að tala um og líka aðra hluti í sambandi við skólanám í landinu og sérstaklega með tilliti til þess að nú stendur það til og yfirlýst stefna að flytja rekstur skólanna til sveitarfélaganna. Af þeim ástæðum hlýtur að þurfa að fara mjög vandlega ofan í það hvaða kröfur það eru sem almennt á að gera til hins opinbera því auðvitað munu sveitarfélögin fá þessar kröfur á sig. Það mun örugglega verða enn meiri þrýstingur á sveitarfélögin heldur en hefur verið á hið opinbera að koma til móts við kröfur um jöfnun á kostnaði vegna náms. Það er þess vegna mjög mikilvægt að fá upplýsingar um hvað það kostar að koma til móts við kröfur eins og þær sem hér hafa verið til umræðu.
    Ég vil síðan segja að það er hálfgrátbroslegt að sjá stjórnarliða flytja þáltill. dag eftir dag sem lýsa vonbrigðum þeirra með stjórnarstefnuna og hvernig til hefur tekist með hana á sl. fjórum árum. Við vorum með umræðu í vikunni um tillögu frá hv. 1. flm. þessarar tillögu sem hér er til umræðu um vöruverð á landsbyggðinni og nú erum við með tillögu um skipan nefndar sem á að gera úttekt á kjörum og stöðu fólks sem stundar nám fjarri heimabyggð. Áðan var til umræðu till. til þál. um eflingu menntunar í framhaldsskólum á sviði sjávarútvegs og matvælaiðnaðar. Allt eru þetta tillögur sem eru raunverulegar yfirlýsingar um það að ríkisstjórnin hafi ekki staðið sig. Stjórnarliðar eru að lýsa yfir vonbrigðum sínum með það að ekkert skuli hafa miðað í þeirra hjartans málum. Það er út af fyrir sig örugglega rétt niðurstaða þeirra að það hafi mátt gera betur og það er þá ekki við þá að sakast út af fyrir sig að leggja þó fram sínar hugmyndir og tillögur til umræðu í þinginu og ég lýsi aftur yfir stuðningi mínum við þessa tillögu en lýsi aftur á móti vonbrigðum mínum með það að við skulum vera að sjá hug þeirra koma fram í þessum málum þegar kjörtímabilið er á enda.