Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 12:24:24 (2163)


[12:24]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 5. þm. Austurl. fyrir að hafa frumkvæði um það að flytja þessa till. til þál. sem hér er til umræðu. Það er vissulega svo að kjör og staða fólks er mjög mismunandi í landinu. Þeir sem búa í hinum dreifðari byggðum eiga í mörgum tilvikum erfiðara með að stunda nám fjarri heimabyggð og hafa af því nokkuð meiri kostnað en þeir sem geta stundað allt sitt nám nánast við bæjardyrnar. Þess vegna held ég að það sé tímabært að flytja þessa tillögu og gera þá athugun sem tillagan gerir ráð fyrir. En mér heyrist, hæstv. forseti, að sú umræða sem hér hefur farið fram sé nokkuð fyrir utan efni tillögunnar vegna þess að í tillögunni segir, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin athugi sérstaklega:
    1. hvort námsfólk, er stundar nám fjarri heimabyggð, verði af réttindum og félagslegri þjónustu ef það heldur lögheimili í heimabyggð.``
    Það sem hér er fyrst og fremst verið að vekja athygli á og óska eftir að athugun verði gerð á snýr að þeim sveitarfélögum þar sem skólarnir eru. Hvar eru nú skólarnir? Þeir eru jú mest hér á höfuðborgarsvæðinu og á stærstu byggðasvæðunum í landinu og þess vegna lít ég þannig á þessa tillögu að það eigi

að gera sérstaka athugun á því hvernig sveitarfélögin þar sem skólarnir eru koma til móts við námsmenn gagnvart hinni félagslegu þjónustu. Það er meginmál. Það fer ekkert á milli mála að sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem nýtur þess að hér eru menntastofnanirnar á framhaldsskólastigi, hafa af því feiknarlega miklar tekjur og ég tel að það sé mjög þarft að gera þessa úttekt sem tillagan gerir ráð fyrir og einnig að það verði skoðað hvernig Lánasjóður íslenskra námsmanna kemur til móts við þær sérstöku aðstæður sem lúta að ferðakostnaði frá heimabyggð og til skólanna og þann kostnað sem fólk sem þarf að flytjast búferlum vor og haust hefur umfram þá sem búa við þau kjör að skólarnir hafa verið byggðir upp í þeirra heimabyggð. Þetta vildi ég að kæmi fram, hæstv. forseti, við þessa umræðu og ég fagna því að þessi tillaga komi hér fram.
    Ég verð að segja vegna orða þeirra hv. þm. sem hér hafa talað að hv. 5. þm. Austurl. hefur verið öflugur talsmaður landsbyggðarinnar. Hann hefur verið öflugur talsmaður hér á þingi fyrir byggðastefnu og þess vegna er það ekki á nokkurn hátt hjáróma rödd sem hér heyrist þegar hann flytur þessa tillögu í þinginu.
    En það sem er hins vegar mikilvægast er að tryggja nám í heimabyggð. Framhaldsnám er ekki alls staðar hægt að stunda en ég tel að sú þróun, sem hefur átt sér stað með uppbyggingu framhaldsskólanna um allt land með því að framhaldsdeildir hafa verið settar á stofn í mörgum hinna stærri byggða og þær deildir tengjast framhaldsskólunum í landshlutunum, ég tel að það sé æskilegt og hafi leitt til þess að námsfólk hefur getað verið lengur í sinni heimabyggð og það er afskaplega mikilvægt að svo sé.
    Varðandi athugasemdir hv. stjórnarandstæðinga í þessari umræðu að þetta sé einhver áfellisdómur yfir ríkisstjórninni eða viðkomandi hæstv. ráðherrum þá vil ég minna þessa hv. þm. á það að þeir höfðu tækifæri á síðasta kjörtímabili til þess að gera það sem þeir eru að láta að liggja að ætti að hafa gerst á þessu kjörtímabili. En það fer ekkert á milli mála að á þessu kjörtímabili hefur verið komið til móts við þessa hluti með áframhaldandi öflugri uppbyggingu, sérstaklega á sviði framhaldsskólanna og einnig með því að dreifbýlisstyrkir hafa verið veittir þeim sem stunda nám í framhaldsskólunum. Og síðast en ekki síst tel ég að með því að sveitarfélögin hafa eflt grunnskólann mjög víða, eftir að sveitarfélögin tóku meiri þátt í rekstri grunnskólanna þá hafi þróunin orðið sú að grunnskólarnir hafa orðið betri.
    Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, vil aðeins segja að lokum að ég fagna þessari tillögu og ég vona svo sannarlega að hún nái hér fram að ganga og hægt verði að gera þá athugun sem hún gerir ráð fyrir.