Úttekt á kjörum fólks er stundar nám fjarri heimabyggð

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 12:30:27 (2164)


[12:30]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka góðar undirtektir við þessa till. til þál. um að fram fari úttekt á kjörum námsfólks er stundar nám fjarri heimabyggð. Ég tel að hér sé um mjög brýnt mál að ræða eins og hv. þm. sem tekið hafa þátt í umræðunum hafa staðfest með mér og ég bind miklar vonir við að þessi tillaga geti náð fram að ganga á þessu þingi. En ég get líka tekið undir það, og það var skoðun mín er ég lagði fram þessa till. til þál., að þetta mál ætti að skoða í hinu víðasta samhengi og ég vil taka undir þau sjónarmið. Satt best að segja varð það niðurstaða mín þegar ég var að huga að þessum málum þegar ég var að vinna í málinu að það væri affarasælast að gera það með þeim hætti og ef tillagan er skoðuð greinilega og texti hennar rýndur þá kemur einmitt þar fram að hér er ekki sérstaklega átt við framhaldsnám fremur en annað nám, heldur er talað um nám í almennri merkingu og þess vegna nær tillagan líka yfir t.d. aðstæður sem skapast vegna búsetu á heimavist. Það þarf líka að skoða skólaaksturinn og hann kemur inn í þetta líka og ég get tekið undir þau sjónarmið að hann gegnir afar mikilvægu hlutverki í dreifbýlinu.
    Ég vil þess vegna, hæstv. forseti, í lok þessarar umræðu þakka hana og ég vona að hún megi skila árangri. En ég get ekki látið hjá líða að minnast á að hér hafa fulltrúar allra flokka talað í umræðunum nema Framsfl. Ég sakna þess að fulltrúi Framsfl. skuli ekki tala í þessum umræðum þar sem verið er að ræða jafnbrýnt stórmál og kjör námsfólks á landsbyggðinni. Ég hef ekki orðið var við marga hv. þm. Framsfl. í þingsalnum við þessa umræðu en séð einum og einum bregða fyrir og mig langar til að varpa fram þeirri spurningu hvort þetta merki einhver þáttaskil í afstöðu Framsfl. til byggðamála. Þess vegna langar mig til að spyrja hvort hæstv. forseti telji ástæðu til að fresta þessum umræðum núna til þess að gefa fulltrúa Framsfl. tækifæri á að undirbúa ræðu til að flytja við þessa mikilvægu umræðu svo að stefna Framsfl. geti komið fram. Hér er um byggðamál að ræða og við þekkjum sögu Framsfl. sem hefur vitnað um a.m.k. áhuga í orði á málefnum landsbyggðarinnar og þess vegna kann það að geta valdið pólitískum misskilningi ef þessari umræðu lýkur án þess að Framsfl. geti komið sjónarmiðum sínum hér á framfæri. Þess vegna langar mig til að spyrja um mat hæstv. forseta á því, hvort hann telji ástæðu til að sýna Framsfl. þá tillitssemi að umræðunni verði frestað svo að Framsfl. geti komið sínum sjónarmiðum á framfæri við umræðuna.
    ( Forseti (SalÞ) : Nei. Forseti telur ekki ástæðu til þess. Það var enginn á mælendaskrá frá þeim hópi sem hv. þm. er að vitna til og þess vegna telur forseti enga ástæðu til að fresta umræðum þess vegna.)
    Ég deili ekki við hæstv. forseta og get líka tekið undir hennar niðurstöðu en ég vildi koma þessari ósk á framfæri af tillitssemi við þingflokk Framsfl. hér í þinginu, en ég trúi því að fulltrúi hans komi sínum sjónarmiðum á framfæri í starfi hv. menntmn. þannig að hann geti haft tök á því að eiga þátt í framvindu landsbyggðarmála hér í þinginu.