Leikskólar

47. fundur
Föstudaginn 02. desember 1994, kl. 13:30:31 (2168)


[13:30]
     Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 78/1994, um leikskóla. Frumvarpið er á þskj. 286 og flyt ég það ásamt öðrum þingkonum Kvennalistans.
    Samkvæmt 1. gr. frv. er lagt til að 7. gr. núgildandi laga orðist svo, með leyfi forseta:
    ,,Bygging og rekstur leikskóla skal vera á kostnað og í umsjón sveitarstjórna og sjá þær um framkvæmd þessara laga, hver í sínu sveitarfélagi. Sveitarstjórnum er skylt að hafa forustu um að tryggja börnum undir skólaskyldualdri dvöl í góðum leikskóla. Óski foreldrar eða aðrir forráðamenn 4 og 5 ára barna eftir leikskóladvöl fyrir barn sitt er sveitarfélögum skylt að verða við þeirri ósk. Heimilt er öðrum aðilum að reka leikskóla að fengnu samþykki viðkomandi sveitarstjórnar. Tilkynna skal menntamálaráðuneytinu um stofnun nýs leikskóla. Sveitarstjórnir skulu árlega senda menntamálaráðuneytinu ársskýrslu um starfsemi leikskóla.``
    Hér er sem sagt lagt til að það verði breytt örlítið skyldum sveitarfélaga gagnvart 4 og 5 ára börnum en í núgildandi lögum segir svo, með leyfi forseta:
    ,,Bygging og rekstur leikskóla skal vera á kostnað og í umsjón sveitarstjórna og sjá þær um framkvæmd þessara laga, hver í sínu sveitarfélagi, þeim er skylt að hafa forustu um að tryggja börnum dvöl í góðum leikskóla.``
    Með þeirri breytingu sem lögð er til í frv. má segja að verið sé að gera sveitarfélögin fræðsluskyld gagnvart 4 og 5 ára börnum á leikskólum ef forráðamenn barnanna óska. Með fræðsluskyldu er hér átt við að sveitarfélögum sé skylt að veita fjögurra og fimm ára börnum leikskólavist ef forráðamenn þeirra óska og það skal áréttað að hér er ekki verið að tala um skólaskyldu í þeirri merkingu að foreldrar verði að senda börn sín á leikskóla né að leikskóladvölin eigi að hafa meira fræðsluyfirbragð en hingað til.
    2. gr. frv. hljóðar þannig: ,,Lög þessi öðlast gildi 1. jan. 1996.`` Það þykir rétt að gefa sveitarfélögum örlítinn tíma til þess að aðlagast þessari breytingu.
    Í grg. með frv. legg ég áherslu á að uppeldi og menntun uppvaxandi kynslóða sé verkefni sem ekkert þjóðfélag má kasta höndum til. Með vaxandi atvinnuþátttöku kvenna hefur þörfin og krafan um samfélagslega þátttöku í uppeldi barna orðið áþreifanlegri og viðurkenndari.
    Íslensk stjórnvöld hafa verið ótrúlega svifasein að verða við þessu kalli þannig að nú er oft hróplegt misræmi á milli vinnutíma foreldra og barna, bæði þeirra sem eru á leikskólum og í grunnskólum. Þó að rekstur leikskólans sé nú alfarið á vegum sveitarfélaga er það viðurkennt skv. 1. gr. gildandi laga að leikskólinn sé fyrsta skólastigið í skólakerfinu fyrir börn undir skólaskyldualdri og að menntmrn. fari með yfirumsjón með leikskólastiginu.
    Skólaskylda 6 ára barna var samþykkt árið 1990, en fram að þeim tíma var heimildarákvæði til að reka forskóla fyrir 5--6 ára börn innan grunnskólans. Nú eru lögbundin skil á milli leik- og grunnskólastigsins við 6 ár og ekki þykir ástæða til að breyta því á meðan mikil uppbygging er fyrirsjáanleg á báðum skólastigum til að einsetja grunnskólana og fullnægja eftirspurn vegna leikskóla.
    Í þessu frv. er athyglinni beint að 4 og 5 ára börnum. Lagt er til að koma á fræðsluskyldu sveitarfélaga fyrir þessa tvo árganga ef foreldrar óska eftir leikskólavist. Tekið skal skýrt fram að hér er ekki átt við skólaskyldu, eins og að framan greindi áðan, í þeirri merkingu að foreldrar verði að senda börn sín í leikskóla.
    Helstu rök fyrir þessari lagabreytingu eru eftirfarandi:
    1. Leikskólauppeldi þykir æskilegur undirbúningur fyrir skólagöngu barna einkum hvað varðar vitrænan og félagslegan þroska samkvæmt fjölmörgum rannsóknum bæði hér á Íslandi og erlendis.
    2. Leikskólauppeldi þykir mikilvæg leið til að jafna uppeldislegan aðstöðumun barna áður en að eiginlegri skólagöngu kemur.
    Í nágrannalöndunum hafa verið farnar ýmsar leiðir, kannski þekktust hin svokallaða ,,headstart``-áætlun í Bandaríkjunum þar sem lögð hefur verið áhersla á það að öll börn eigi aðgang, sérstaklega börn sem koma frá erfiðum heimilum, að leikskólavist áður en þau fara í skóla.
    3. Samkvæmt upplýsingum frá menntamálaráðuneytinu og Hagstofu Íslands voru 79,2% 4 ára barna

og 74,1% 5 ára barna í leikskólum 1. desember 1993. Því er ljóst að 20--25% barna í þessum árgöngum eru ekki í leikskóla.
    4. Samanburðarupplýsingar frá öðrum löndum um uppeldisaðstæður 4 og 5 ára barna eru okkur yfirleitt óhagstæðar og ég ætla að nefna nokkrar upplýsingar í því sambandi.
    Í Frakklandi eru 95% 3 ára barna og næstum 100% bæði 4 og 5 ára barna í leikskólum sem, eins og hér, eru fyrsta skólastigið. Þar eru þeir foreldrum að kostnaðarlausu eins og skylduhluti grunnskólans hér.
    Í Englandi eru 5 ára börn skólaskyld. Einungis um 50% 4 ára barna hafa aðgang að forskólum í Englandi sem að stórum hluta eru einkaskólar eða reknir af foreldrum. Það fer því vaxandi að börn byrja í grunnskólum 4 ára þar, þ.e. sama ár og þau verða 5 ára. Þrýstingurinn er í þá átt að þau byrji fyrr í grunnskólanum af því að leikskólinn hefur ekki sinnt sínu hlutverki.
    Á Írlandi eru 4 og 5 ára börn skólaskyld.
    Á Spáni er forskólastiginu skipt í tvennt, þ.e. leikskóla og sérstaka smábarnaskóla fyrir 4 og 5 ára börn sem um 85% þessara árganga nýta sér.
    Í Þýskalandi eru börn skólaskyld 6 ára og eru í leikskólum eða svokölluðum ,,Kindergarten`` frá 3 til 6 ára samkvæmt óskum foreldra. Greiðsla þar fyrir leikskólavist miðast við tekjur foreldra þannig að börn við erfiðar aðstæður eiga að geta komist á leikskóla.
    Í Bandaríkjunum hefst skólaskylda víðast hvar við 6 ára aldur en a.m.k. fimm fylki hafa lækkað skólaskyldualdurinn í 5 ár á undanförnum árum og í mörgum skólum er boðið upp á ókeypis forskólavist sem ekki er skólaskylda fyrir 4 og 5 ára börn.
    Í Japan eru börn skólaskyld 6 ára en gífurlegur þrýstingur er á að komast í góða leikskóla til að standast samkeppni þegar í skólann er komið. Um 95% japanskra 4 og 5 ára barna fara í leikskóla.
    Í Svíþjóð eru börn skólaskyld 7 ára svo og í Noregi en flest börn fara í forskóladeildir, 6 ára deildir eins og þær hétu hér, og ástand leikskólamála er mjög breytilegt eftir sveitarfélögum á Norðurlöndum, svo og greiðslur fyrir leikskólavist þar.
    Fimmtu rökin fyrir samþykkt þessa frv. eru að ekki er vitað hve stór hluti þeirra 4 og 5 ára barna sem ekki eru í leikskólum hér á landi eru það ekki vegna þess að foreldrarnir hafa ekki efni á því. Ég er mjög hrædd um að það sé ein mikilvæg ástæða. Við vitum ekki hvort það er vegna þess að foreldrar hafa ekki áhuga á því, hvort leikskólavist er ekki í boði eða hvort foreldrar hafa ekki efni á að nýta sér leikskólavist. Þetta þarf því að kanna.
    Ef í ljós kemur að það er fyrst og fremst framboð á leikskólarými sem kemur í veg fyrir að 20--25% 4 og 5 ára barna sækja leikskóla þyrfti að hraða uppbyggingu leikskóla. Hugsanlega þyrfti þá að seinka gildistöku þessara laga til að koma í veg fyrir að þrengt verði að möguleikum yngri barna til leikskólavistar sem er ekki tilgangur þessa frv. Ef í ljós kemur að foreldrar óska ekki eftir leikskólavistun fyrir þessi 20--25% 4--5 ára barna þar sem þeir kjósa að sinna börnum sínum sjálfir mun þessi lagabreyting ekki breyta miklu. Ef hins vegar kemur í ljós að hægt er að fá leikskólavist og foreldrarnir hafa áhuga á að nýta hana en hafa ekki efni á því þá er mjög mikilvægt að huga að leiðum til þess að koma í veg fyrir að atvinnuleysi eða fjárhagserfiðleikar foreldra hindri leikskólavistun barna þeirra. Ég legg áherslu á þann rétt barna sem þetta frv. kveður á um að öll börn eiga rétt á að vera a.m.k. tvö ár í leikskóla áður en skólaganga hefst.
    Hvort sem af því verður að rekstur grunnskólans fari alfarið yfir á sveitarfélögin eða ekki er það hlutverk löggjafans og menntmrn. að sjá til þess að allt sé gert sem mögulegt er til að tryggja jafnrétti allra barna til náms og þroska. Forskóli er hin hefðbundna leið til að jafna aðstöðumun barna til náms áður en skólaganga hefst. Þegar forskóladeildir grunnskólans voru skyldubundnar fluttist þetta hlutverk til leikskólans og tryggja þarf nú að þeim 20--25% 4 og 5 ára barna sem ekki eru í leikskólum standi slík vist til boða óháð búsetu og efnahag foreldra.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.