Tengsl ferðaþjónustu við íslenska sögu

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:10:37 (2177)


[15:10]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi tek ég fram að ég lít svo á að tillögunni hafi verið fylgt eftir. Bæði á vegum ráðuneytisins og eins í Ferðamálaráði hefur verið unnið samkvæmt efni tillögunnar og unnið í þeim anda að saga okkar og menningarsetur og annað það sem þjóðlegt er nýtist okkur í ferðaþjónustunni. Í fyrsta lagi hefur komið glöggt fram í störfum Ferðamálaráðs og ég hygg ef hv. þm. kynnir sér útgáfumál Ferðamálaráðs og hvernig það hefur unnið muni hv. fyrirspyrjandi sannfærast um að þar fer ég með rétt mál. Þar hefur veruleg jákvæð breyting orðið á og ber að fagna því.
    Í öðru lagi liggur líka fyrir að ferðamálanefnd Vest-Norden setti á sl. sumri af stað verkefni er tengjast menningu þjóðarinnar og sögu. Fimmtán ungmenni frá Færeyjum og Grænlandi unnu að því að lagfæra og snyrta umhverfi Grettislaugar í Skagafirði. Þau komu að Reykjum á Reykjaströnd og byggðu þar sjóbúð, komu að Bólulundi í Skagafirði og hugmyndin er að halda þessu starfi áfram. Loks hefur samgrn. veitt nokkra styrki til hins sama.
    Samgrn. beitti sér fyrir átakinu ,,Ísland, sækjum það heim`` á þessu ári, til þess að reyna að hvetja fólk til að ferðast um landið í samvinnu við Olíufélagið hf. og Mjólkursamsöluna. Í auglýsingum þessa átaks var mjög höfðað til sögu þjóðarinnar og sögustaða og þá sérstaklega til þjóðhátta og í útgáfu átaksins birtur listi yfir margvíslega menningaratburði sl. sumar. Ég tek fram að ,,Ísland, sækjum það heim``, og einnig það söguverkefni, sem ég lýsi nú, mun á næsta ári falla undir verksvið Ferðamálaráðs.
    Samgrn. hefur hafið undirbúning sérstakra merkinga á sögufrægum stöðum og náttúruvættum víðs vegar um landið í samvinnu við Þjóðminjasafn, Vegagerð og fleiri aðila og hefur Vífilfell hf. kostað gerð skilta sem sett verða upp í þessu átaki. Fyrsta skiltið var sett upp um verslunarmannahelgi á Möðruvöllum í Hörgárdal og er það á fimm tungumálum þar sem í stuttu máli er skýrt það sem markverðast er á hverjum stað. Hefur þegar verið gerð áætlun um að merkja 50 staði með þeim sama hætti.
    Ég hygg að það sé öldungis ljóst að unnið hefur verið í þeim anda sem þáltill. felur í sér. Á hinn bóginn verð ég að biðjast afsökunar á því að mér láðist að skipa þá nefnd sem mér var falið að gera samkvæmt ályktuninni en hef nú bætt úr því. En ég tek fram að unnið hefur verið í anda ályktunarinnar og gerðar áætlanir um það hvernig megi tengja sögustaði og annað ferðaþjónustunni og þeirri starfsemi.
    Valgarður Egilsson læknir er formaður nefndarinnar en bæklingur hans, Fjörður, sem hann gaf út á sl. vori, vakti mikla athygli þar sem hann rakti bæði sögu þessa sérstaka og afskekkta landsvæðis, vakti athygli á náttúru og öðru því sem þar við kemur. Aðrir í nefndinni eru Gunnlaugur Eiðsson leiðsögumaður, sem er mjög kunnugur landinu, Erla Kristjánsdóttir kennslustjóri, Jón Böðvarsson, cand. mag., og Margrét Hallgrímsdóttir borgarminjavörður.
    Ég hef óskað eftir því við Valgarð vegna þess að skipan nefndarinnar dróst að hann hraðaði störfum og mun hann reyna að skila a.m.k. áfangaáliti í febrúarmánuði en allt tók þetta fólk málaleitan minni vel og skildi hvernig málið er vaxið.