Bygging kjötmjölsverksmiðju

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:34:39 (2186)


[15:34]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Hæstv. forseti. Þessi hagkvæmnisathugun á byggingu og rekstri kjötmjölsverksmiðju á Íslandi var gerð á árinu 1993 og unnin að frumkvæði sveitarfélaga á Suðurlandi og með stuðningi fyrirtækja og stofnana þar, Byggðastofnunar að auki, Sláturfélags Suðurlands og Reykjagarðs hf. Landbrn. hefur kynnt sér skýrsluna í samráði við umhvrn. og hefur hún komið til umræðu á samráðsfundum þessara ráðuneyta en starfshópnum stýrir Sveinbjörn Eyjólfsson í landbrn. Ekki liggur fyrir afstaða til skýrslunnar en ráðuneytið hefur haft samband við landssamtök sláturleyfishafa vegna hennar.
    Í umsögn þeirra samtaka eru gerðar athugasemdir við ákveðna liði, svo sem að magn úrgangs sé ofmetið, söluverð afurða sé ofmetið og kostnaður við söfnun úrgangs sé vanmetinn og ýmis annar kostnaður sláturleyfishafa sé vanmetinn. Það er mat sláturleyfishafa að kostnaður við framkvæmdina liggi á bilinu 5--10 kr. á kg fremur en 2,90 kr. eins og fram kemur í skýrslunni.
    Samband ísl. sveitarfélaga hefur einnig ályktað um skýrsluna og bent á nokkur atriði sem þurfa nánari skoðunar. Í ályktun sambandsins segir m.a.:
    ,,Eigi að síður leggur stjórnin til að hugmyndin um að koma á fót fullkominni kjötmjölsverksmiðju verði skoðuð nánar og að áfram þurfi að vinna að lausnum á eyðingu slátur- og kjötúrgangs sem fullnægi ströngustu mengunarkröfum. Í því sambandi þarf jafnframt að taka tillit til ólíkra aðstæðna víða um land og meta af raunsæi þann mikla kostnað sem felst í því að flytja þarf úrganginn langar leiðir og aðra kosti til að lækka flutningskostnað.``
    Starfshópurinn fjallaði á liðnum vetri um ýmsa þætti landbúnaðar með það að markmiði að gera áætlun um að landbúnaðurinn ynni á umhverfisvænni forsendum en verið hefur. Í skýrslu sem sú nefnd hefur sett frá sér segir m.a. um sláturúrgang, markmið og aðgerðir:
    ,,Markmið: Nýting sláturúrgangs verði bætt og þannig sköpuð atvinna og verðmæti. Förgun valdi hvorki mengun á grunnvatni né jarðvegi.
    Um aðgerðir:
    1. Veittir verði styrkir til þróunar afurða úr sláturúrgangi.
    2. Kannað verði hvort nota megi sláturúrgang til jarðvinnslu og landgræðslu.
    3. Fylgt verði til hlítar reglum um urðun eða förgun sláturúrgangs.
    Nefndin mælir ekki sérstaklega með stórri kjötmjölsverksmiðju en leggur þó áherslu á að nýting sláturúrgangs verði bætt. Hugmyndin um eina kjötmjölsverksmiðju er umfangsmikil og ljóst að af henni

verður ekki nema ríkisvaldið leggi til verulegan hluta stofnkostnaðar. Áður en eftir slíku verður leitað hefur landbrn. talið rétt að leggja áherslu á frumkvæði atvinnuvegarins í þessu máli og rétt sé að styðja hann til frekari og bættrar nýtingar á sláturúrgangi fremur en að fyrirskipa hvernig atvinnuvegurinn skuli að slíku vinna.
    Að endingu má geta þess að Sigmundur Guðbjarnason leiddi á árinu 1978 starfshóp sem vann að sambærilegu verkefni. Í gögnum ráðuneytisins er skýrsla þess starfshóps, en þar segir í 3. lið kaflans um niðurstöður:
    ,,Nefndin álítur að kjötmjölsverksmiðja á Selfossi yrði hagkvæmt þjóðþrifafyrirtæki og beri að stuðla að byggingu slíkrar verksmiðju.``
    Þrátt fyrir þetta nefndarálit og miklar umræður alla tíð hefur ekki náðst sú samstaða í atvinnugreininni sem nauðsynleg er meðal sláturleyfishafa og á þessum erfiðu tímum er vart við því að búast að landbúnaðurinn hafi tök á því að greiða þann viðbótarkostnað sem af þessari starfsemi mun hljótast.
    Ég vil svo bæta því við að af þessu tilefni finnst mér sjálfsagt að taka þetta mál upp að nýju við umhvrn. og að ráðuneytin í sameiningu ræði þetta mál á nýjan leik, bæði við sveitarfélög, sláturleyfishafa og bændur til þess að leita eftir skynsamlegum leiðum sem hafi það tvíþætta markmið að vinna verðmæti úr sláturúrgangi og koma í veg fyrir mengun.