Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:47:30 (2190)


[15:47]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Undirbúningur fyrir ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna í Peking á næsta ári hófst í utanrrn. haustið 1993. Undirbúningsnefnd hóf störf í september það haust. Nefndin hittist reglulega, fór yfir þau gögn sem bárust og hafði samráð við fastanefndina í New York, m.a. vegna þátttöku í undirbúningsfundum kvennanefndarinnar og kvennamisréttisnefndarinnar sem haldnir voru í febrúar og mars sl. Þá var eins og venja er haft norrænt samráð milli fastanefndarinnar í New York fyrir fundi kvennanefndarinnar í New York.
    Þá tóku fulltrúar undirbúningsnefndarinnar þátt í málstofu um ráðstefnuna sem haldin var í Nordisk Forum í Turku í ágúst sl. Framkvæmdanefnd Sameinuðu þjóðanna vegna kvennaráðstefnunnar í Peking hefur haft þann háttinn á í undirbúningnum að kalla til svæðisbundinnar ráðstefnu um málefni kvenna. Efnahagsnefnd Evrópu stóð fyrir ráðstefnunni fyrir lönd Evrópu, Norður-Ameríku og Ísraels sem haldin var í Vínarborg 17.--21. okt. sl. Þann fund sóttu fyrir Íslands hönd Anna Guðrún Björnsdóttir, deildarstjóri í félmrn., fulltrúi félmrh., Lilja Ólafsdóttir, sendiráðunautur í Genf, og Sigríður Lillý Baldursdóttir á vegum utanrrn.
    Utanrrn. hefur forræði undirbúnings vegna ráðstefnunnar, enda er um milliríkjaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að ræða þar sem fjallað verður um málefni kvenna út frá alþjóðlegu sjónarhorni. Undirbúningurinn hefur frá byrjun verið á hendi nefndar sem í hafa setið fulltrúar m.a. frá öðrum ráðuneytum. Í september 1993 var sett saman nefnd samkvæmt tilnefningum frá dómsmrn., Ingunn Guðmundsdóttir, frá félmrn. Ólína Þorvarðardóttir og frá Jafnréttisráði Lára V. Júlíusdóttir ásamt með fulltrúa utanrmn. Bergdísi Ellertsdóttur sem er formaður nefndarinnar.
    Á haustdögum 1994 var ljóst að umfang starfsins var meira en svo að fjögurra manna nefnd gæti sinnt því sem skyldi og því var ákveðið að stækka nefndina. Auk fyrrnefndra fulltrúa tóku sæti í nýrri nefnd Inga Jóna Þórðardóttir, fulltrúi Kvenréttindafélags Íslands, Drífa Hjartardóttir frá Kvenfélagasambandinu, Margrét Einarsdóttir frá UNIFEM á Íslandi, Hansína Stefánsdóttir frá ASÍ og Hrafnhildur Stefánsdóttir fulltrúi VSÍ. Sigríður Lillý Baldursdóttir, fyrrverandi formaður UNIFEM á Íslandi, var ráðin framkvæmdastjóri í fullt starf frá og með næstu áramótum ásamt því að vera fulltrúi utanrrn. og formaður stækkaðrar undirbúningsnefndar.
    2. Þegar spurt er hverjir verða valdir fulltrúar til setu á ráðstefnunni fyrir Íslands hönd er svarið það að engin ákvörðun hefur verið tekin um það hvernig íslenska sendinefndin verður samansett á ráðstefnunni sjálfri. Að því er varðar samráð við stjórnmálaflokka og kvennahreyfingar um undirbúning skal eftirfarandi tekið fram: Í nóvember 1993 var leitað eftir tilnefningum hagsmunasamtaka og stjórnmálaflokka í ráðgjafarhóp sem kæmi að undirbúningnum með undirbúningsnefnd. Eftirtaldir áttu fulltrúa í ráðgjafarhópnum: Alþb., Kvennalistinn, Landssamband framsóknarkvenna, Landssamband sjálfstæðiskvenna, Samband alþýðuflokkskvenna, ASÍ, BHMR, BSRB, VSÍ, Kvenfélagasamband Íslands, Kvenréttindafélag Íslands, Nordisk Forum, Stígamót, UNIFEM á Íslandi, Kvennaathvarfið og Rannsóknarstofa í kvennafræðum. Tveir fundir hafa verið haldnir með ráðgjafarhópnum, 31. maí og 13. sept. í ár þar sem ráðstefnan var kynnt og sagt frá starfi undirbúningshópsins. Þá hefur formaður undirbúningsnefndar hvatt fulltrúa í ráðgjafarhóp til þess að taka virkan þátt í undirbúningnum.
    Verkefni nýskipaðrar nefndar eru mörg en búast má við að fyrsta kastið muni hún einbeita sér að því að ljúka gerð skýrslu um málefni kvenna hér á landi til framkvæmdastjórnar ráðstefnunnar. Jafnhliða þykir rétt að kynna ráðstefnuna eftir föngum og reyna með því að stuðla að umræðu í þjóðfélaginu um stöðu kvenna og réttindi. Slík kynning er m.a. fólgin í samneyti við frjáls félagasamtök sem láta sig málefni kvenna einhverju varða. Hjá undirbúningsnefndinni safnast upp ýmis gögn sem geta komið félögunum að notum í undirbúningi þeirra fyrir óopinberu ráðstefnuna sem verður haldin samhliða hinni opinberu í Peking á hausti komanda. Þá er fagleg aðstoð frá hagsmunafélögum kvenna mikilvæg í undirbúningsstarfinu vegna opinberu ráðstefnunnar.

    Undirbúningsnefndin stefnir að því að efna til samráðsfundar með fulltrúum frjálsra félagasamtaka eins fljótt og auðið er þar sem gerð verður grein fyrir störfum nefndarinnar og er reynt að finna samstarfi hennar og ráðgjafarhóps fastan farveg. Enn sem komið er hefur ekki skapast formlegt samband milli þeirra félaga kvenna sem hafa hugsað sér að láta til sín taka með einhverjum hætti vegna ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Samráðsfundurinn gæti orðið vettvangur fyrir myndun slíks sambands ef áhugi er fyrir hendi.