Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:52:38 (2192)


[15:52]
     Kristín Einarsdóttir :
    Frú forseti. Ég vil einnig þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að koma fram með þessa fsp. Ég heyri á svörum ráðherra að það er kominn einhver skriður á málin en því miður verð ég að segja að til skamms tíma var ákaflega lítið gert varðandi undirbúning þessarar ráðstefnu. Þó að seint sé af stað farið þá er það þó strax í áttina. Undirbúningur lokastarfsins er langt á veg kominn. Ég er nýkomin frá fundi Sameinuðu þjóðanna í New York og þar var verið að ræða þessi mál, m.a. þessa ráðstefnu, og þar eru konur og karlar raunar líka að vinna mikið nú þegar að þessu og er komið mjög langt. Ef við ætlum að verða virkir þátttakendur í þessari ráðstefnu hér heima sem ég held að skipti náttúrlega mjög miklu máli og eins í Peking, þá verður að fara að gera eitthvað mjög róttækt og það strax.