Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:54:03 (2193)


[15:54]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur fyrir að hafa hreyft þessu máli og það er satt að segja ekki seinna vænna að það verði tekin um það umræða í þessari virðulegu stofnun. Í öðrum þingum er kostur á því að ræða almennt um undirbúning ráðstefnu af þessu tagi en það er einhvern veginn þannig hér að það er erfitt að opna fyrir slíkt í þingsköpum og sérstaklega er það alveg útilokað í fyrirspurnatíma. Þess vegna vildi ég beina því til hæstv. ráðherra að það verði kannað hvort þær nefndir þingsins sem hérna skipta mestu máli eiga ekki að koma að málinu, hvort þær eiga ekki með skipulegum hætti að undirbúa þessa alþjóðlegu ráðstefnu, t.d. þannig að utanrmn. og félmn. í sameiningu vinni að undirbúningi ráðstefnunnar af hálfu Alþingis þannig að það verði tekið myndarlega og málefnalega á þessum hlutum strax eins og stundum hefur verið reynt áður í sambandi við slíkar ráðstefnur með ágætum árangri.