Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um málefni kvenna

49. fundur
Mánudaginn 05. desember 1994, kl. 15:56:34 (2195)


[15:56]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hæstv. utanrrh. fyrir hans svör og eins fyrir þær umræður sem hér hafa skapast í framhaldi af fsp. minni. Hæstv. utanrrh. tókst að telja býsna margt upp sem væri verið að gera og ég lýsi ánægju með að það er kominn einhver skriður á þetta mál núna en sannleikurinn er sá að við Íslendingar höfum farið allt of seint af stað. Mér er kunnugt um það að sl. vor átti að vera búið að skila skýrslum frá þjóðlöndunum um ástand mála en þessi skýrsla er því miður ekki komin frá Íslandi. Ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. utanrrh. hvað líði þessari skýrslugerð þar sem öll önnur Norðurlönd hafa skilað af sér og þetta er mjög bagalegt.
    Það hefur stundum verið þannig með okkur Íslendinga að við höfum tekið þátt í ráðstefnum án þess að hafa unnið okkar heimavinnu nægilega vel og það held ég að sé ekki gott og ég vil því segja það við hæstv. utanrrh. að ef okkur tekst ekki að vinna okkar heimavinnu þannig að sómi sé að þá sé eins gott að sleppa því að vera að taka þátt.
    Í sambandi við það hvernig fulltrúar til þátttöku í ráðstefnunni verða valdir þá er mér kunnugt um að víða er það þannig að opinberir aðilar senda jafnvel fulltrúa frá frjálsum félagasamtökum sem fulltrúa á ráðstefnuna og mér fyndist að það ætti að athuga það hér hvort það geti ekki komið til greina.
    Í síðasta lagi varðar það fjárlög og framlög á fjárlögum vegna þátttökunnar. Það hafa komið fram beiðnir til hv. fjárln. um fjárframlög en þeim hefur ekki verið eftir því sem ég best veit tekið á mjög jákvæðan hátt og þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. utanrrh. að því í lokin, hvernig hann sjái það fyrir sér að hægt verði að fjármagna þátttöku Íslendinga.