Framlagning skattafrumvarpa og störf þingsins fram að jólahléi

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 13:37:41 (2200)


[13:37]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem kom fram hjá hv. 15. þm. Reykv. að þetta er í raun algjörlega óviðunandi ástand og ég vil leyfa mér að segja algjör vanvirða við Alþingi að þau fylgifrv., sem þurfa að fylgja fjárlagafrv. tekjumegin, skuli ekki vera komin fram enn þá þegar samkvæmt starfsáætlun eru eftir níu starfsdagar til jóla. Það er algjörlega óviðunandi ástand.
    Mér er óhætt að segja að á fjórða ár sem ég hef setið í efh.- og viðskn. þá hefur nefndin lagt sig fram um málefnaleg og vönduð vinnubrögð og lagt sig fram um að mæta þeim breyttu kröfum sem eru gerðar til Alþingis. En það er eitt sem hefur algjörlega brugðist varðandi þessa þætti og það er framganga ríkisstjórnar. Að ætla okkur að afgreiða það sem þarf að fylgja fjárlagafrv. varðandi breytingar á skattalögum, afgreiða það á tveimur, þremur fundum, geta ekki sent málið út til umsagnar, verður eins og stundum hefur verið að kalla stóra hópa saman til umsagnar er algjörlega óviðunandi. Ég ítreka það að þetta er í raun algjör vanvirða við Alþingi og það verða að verða breytingar á þessum vinnubrögðum.

    Virðulegi forseti. Ég flutti í fyrra frv. um framlagningu skattamála í þá veru að þau yrðu að koma fram með verulegum fyrirvara. Það fékk umræðu í þinginu en náði hins vegar greinilega ekki að breyta neinu í vinnubrögðum ríkisstjórnar og ég sé mig því knúinn til þess að leggja það fram aftur og fá fram í þinginu málefnalega umræðu um þessa þætti.