Framlagning skattafrumvarpa og störf þingsins fram að jólahléi

50. fundur
Þriðjudaginn 06. desember 1994, kl. 13:40:24 (2201)


[13:40]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það sem hér hefur komið fram hjá hv. þm. sem töluðu á undan mér að vinnubrögð í þinginu eru mjög sérkennileg um þessar mundir og það vekur vaxandi athygli að ekkert bólar á þeim frumvörpum sem fylgja eiga fjárlagafrv. Ég vil fyrst og fremst beina spurningum mínum til hæstv. fjmrh. og spyrja hann að því hvaða frv. það eru sem hann hyggst flytja nú í tengslum við fjárlagaafgreiðsluna og hvenær þessi frv. koma inn í þingið vegna þess að ég sé ekki betur en það standi svo á að ef þessi frv. koma ekki í þessari viku og ekki verði möguleiki á að mæla fyrir þeim og vísa þeim til nefndar fyrir 10. des. nk., þ.e. fyrir vikulokin, þá verði að sjálfsögðu mjög tvísýnt sem hægt er að afgreiða þau fyrir jól. Vægast sagt mjög tvísýnt, ef ekki útilokað með öllu.
    Næsta vika fer bersýnilega að verulegu leyti í fjárlagavinnuna. Það er greinilegt að 2. umr. fjárlaga fer ekki fram í þessari viku heldur færist yfir í næstu viku og það var upplýst á fundi þingflokksformanna áðan að væntanlega færi það svo að sú umræða yrði ekki fyrr en í næstu viku. Þá er 3. umr. eftir. Það er nokkuð augljóst að hv. efh.- og viðskn. verður að hafa góðan tíma til þess að fjalla um þau frv. sem væntanleg eru. Því spyr ég: Koma þessi frv. ekki örugglega á næstu dögum, fyrir vikulokin, þannig að hægt sé að vísa þeim til nefndar áður en vikan er öll?